Um síðustu helgi keypti ég nokkrar Ævintýrabækur eftir Enid Blyton og hugsaði mér gott til glóðarinnar að endurnýja kynnin við þær með syni mínum.

Um síðustu helgi keypti ég nokkrar Ævintýrabækur eftir Enid Blyton og hugsaði mér gott til glóðarinnar að endurnýja kynnin við þær með syni mínum. Í bókunum segir frá fjórum krökkum sem fara sjaldnast í sumarfrí án þess að skuggalegir glæpamenn skjóti upp kollinum. Æsilegri atburðarás lýkur svo með því að börnin koma vondu körlunum í hendur réttvísinnar og fá klapp á bakið fyrir vikið.

Þegar ég var yngri dreymdi mig um að fá að upplifa svona ævintýri. Skrifaði meira að segja sögu þar sem aðalpersónan fletti ofan af glæpsamlegu athæfi í óbyggðum Íslands. Þetta var á þeim tíma þegar algengasti glæpurinn í íslenskum barnabókum var fálkasmygl. Ég lauk aldrei við söguna en að sjálfsögðu áttu bófarnir mínir að fá makleg málagjöld: „Ó, ef við hefðum nú bara látið þessa fálka eiga sig og farið að selja sódastrím,“ hefðu þeir sagt, svekktir og súrir á leið í fangelsið.

Nú þegar innbrotafaraldur ríður yfir borgina sé ég mér leik á borði að láta bernskudrauminn rætast: Að handsama bófana sem voga sér að stela góðærisskartgripum Reykvíkinga. Sé mig í anda leggja gildrur úr bananahýði og fötum með ísköldu vatni um alla íbúð. Rota aðvífandi þjófa með ensk-íslensku orðabókinni minni og binda þá á höndum og fótum. Hringja svo í Stefán Eiríksson lögreglustjóra, sem myndi koma að vörmu spori og þakka mér fyrir vel unnin störf í þágu samfélagsins. Í júníforminu og allt.

Steliþjófar borgarinnar eru því hvattir til að kíkja í heimsókn. Verð með heitt á könnunni. Eða kalt, eftir atvikum.