Staða ríkissjóðs er afar sterk um þessar mundir, bæði í sögulegu samhengi og í samanburði við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Mikill tekjuafgangur undanfarinna ára hefur verið nýttur til að greiða niður skuldir og safna í sjóði.

Staða ríkissjóðs er afar sterk um þessar mundir, bæði í sögulegu samhengi og í samanburði við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Mikill tekjuafgangur undanfarinna ára hefur verið nýttur til að greiða niður skuldir og safna í sjóði. Möguleikar ríkisins til að bregðast við yfirstandandi samdráttarástandi eru því auðvitað meiri en ella. Þannig getur ríkissjóður tímabundið tekist á við snarpan samdrátt í skatttekjum án þess að þurfa að grípa til umfangsmikils niðurskurðar opinberra útgjalda þegar í stað. Það byggir hins vegar auðvitað á því að efnahagslífið nái sér fljótt upp úr þeim öldudal, sem það er nú í, enda er fullkomlega óviðunandi að ríkissjóður verði rekinn með halla árum saman þótt hægt sé að lifa við það um skamma hríð. Við þekkjum það frá fyrri tíð að langvarandi skuldasöfnun ríkisins hefur með margvíslegum hætti alvarlegar afleiðingar fyrir allt hagkerfið. Skuldir hins opinbera þarf auðvitað að borga fyrr eða síðar og skuldasöfnun í dag er þannig bein ávísun á skattahækkanir á morgun.

Á þessum forsendum er ljóst, að traustur fjárhagur ríkisins auðveldar okkur að komast í gegnum kreppuna án þess að grípa til harkalegra aðgerða, sem gætu orðið til þess að dýpka hana verulega, eins og fyrirsjáanlegt væri ef farið væri út í stöðvun opinberra framkvæmda, stórfelldan niðurskurð opinberrar þjónustu eða skattahækkanir. Á hinn bóginn eru menn komnir út á hálan ís þegar þeir halda því fram að sterk staða ríkissjóðs gefi tilefni til að opna allar fjárhirslur og ausa út peningum til þess beinlínis að vega upp á móti samdrættinum, eins og ýmsir – einkum af vinstri vængnum – hafa gefið í skyn að undanförnu. Ég er sannfærður um að slík hagstjórn yrði til þess eins fallin að draga samdráttarskeiðið á langinn og seinka mögulegum viðsnúningi.

Fyrir það fyrsta myndu aðgerðir af því tagi bersýnilega vinna gegn markmiðum um lækkun verðbólgu og þannig seinka verulega möguleikum til að lækka vexti í landinu. Verðbólgan og vextirnir eru helsta vandamál bæði fyrirtækja og einstaklinga um þessar mundir þannig að með þessu móti væru menn einfaldlega að pissa í skóinn sinn. Í annan stað þýða aukin umsvif ríkisins óhjákvæmilega að minna svigrúm verður fyrir atvinnulífið og einstaklingana. Hér verður ekki frekar en annars staðar stuðlað að hagvexti til lengri tíma með vexti í opinberum útgjöldum – forsenda hagvaxtarins er aukin verðmætasköpun í atvinnulífinu. Í þriðja lagi er auðvitað hætta á að skyndileg útgjaldaaukning hins opinbera leiði til þess að fjármunum verði varið til óhagkvæmra og óskynsamlegra verkefna, stofnað sé til ónauðsynlegra rekstrarútgjalda og látið ógert að grípa til aðhalds og sparnaðar, sem víða er þörf í opinberum rekstri. Ég vil ekki ætla neinum – hvorki stjórnmálamönnum né embættismönnum – að þeir láti sér á sama standa um bruðl eða að þeir taki vísvitandi óskynsamlegar ákvarðanir í fjármálum. Ég bendi hins vegar á að hættan á slíkum ákvörðunum eykst ef menn búa ekki við harðan aga í fjármálum – bæði á góðum tímum og slæmum.

Í ljósi þessa er afar mikilvægt að fjárlagaafgreiðsla Alþingis nú í haust beri skýran vott um ráðdeild og aðhaldssemi. Eins og alltaf kunna að vera gild rök fyrir því að auka útgjöld sums staðar en eigi að koma til móts við það er óhjákvæmilegt að draga úr öðrum útgjöldum á móti. Efnahagsástandið gefur ekki tilefni til að bæta á þá fitu sem víða hefur safnast á hið opinbera á góðæristímabilinu. Þvert á móti er mikilvægt að menn skeri hana niður.

Höfundur er þingmaður

Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík