Góð Morgunvaktin á Rás 2 eins og ríkisútvarp á að vera.
Góð Morgunvaktin á Rás 2 eins og ríkisútvarp á að vera. — Ljósmynd/Arnaldur
MÉR finnst gott að kveikja á útvarpi á meðan ég helli upp á kaffið á morgnana, smyr nestið fyrir krílin og velti fyrir mér verkefnum dagsins.

MÉR finnst gott að kveikja á útvarpi á meðan ég helli upp á kaffið á morgnana, smyr nestið fyrir krílin og velti fyrir mér verkefnum dagsins. Ég er hins vegar löngu vaxin upp úr því að geta hlustað á vinsælustu lögin á meðan ég er enn með stírur í augunum. Ég vil heyra þægilegt útvarpsfólk ræða um heima og geima, fá til sín áhugaverða viðmælendur og skilja mig eftir örlitlu fróðari en ég var.

Ég þarf ekkert að fikta í útvarpinu með smjörklístruðum puttum, því það er stillt á Ríkisútvarpið. Upp á síðkastið alltaf á Rás 1. Þar er Morgunvaktin, besti morgunútvarpsþáttur sem völ er á. Mér finnst fátt notalegra en að heyra upplestur úr leiðurum blaðanna og svo allt sem með fylgir. Franskur vísnasöngur í bland við frásagnir af hreindýrum til fjalla, fréttir af fjarlægum löndum og hvað fólk er að bardúsa þar við ólíklegustu hluti, lengra viðtal um eitthvað sem er efst á baugi eða vekur fólk til umhugsunar um mál sem legið hafa í láginni og svona mætti lengi telja.

Morgunvaktin á Rás 1 dregur í mínum huga upp skýra mynd af því hvernig ríkisútvarp á að vera. Fræðandi og skemmtilegt, með puttann á samfélagspúlsinum.

Ragnhildur Sverrisdóttir