Faðir átti kasthnífa og skífu. Hann stillti syni sínum upp við skífuna og kastaði hnífunum að honum og í hann. Sonurinn fékk skurð á lærið. Faðirinn drakk ótæpilega.

Faðir átti kasthnífa og skífu. Hann stillti syni sínum upp við skífuna og kastaði hnífunum að honum og í hann. Sonurinn fékk skurð á lærið. Faðirinn drakk ótæpilega. Börnin voru illa hirt, oftast skítug og ógreidd, mættu sjaldan í skólann og fengu lélega næringu.

Skólayfirvöld grunaði að ekki væri allt með felldu, barnaverndarnefnd var kölluð til og reynt var að styðja við bakið á fjölskyldunni. En svo kom að því að eitt barnanna sagði frá ofbeldinu sem stóð yfir í þrjú ár. Faðirinn hefur verið sviptur forsjánni tímabundið. Börnin eru hjá ömmu sinni og afa. Þau fá nú hjálp.

„Loksins eru börnin að fá þá hjálp sem þau þurfa en við rákumst alls staðar á veggi til að byrja með vegna þess að þau höfðu ekki verið beitt kynferðislegu ofbeldi,“ sögðu ættingjarnir við 24 stundir í gær. Þeir eru ósáttir við hve langan tíma tók að fá hjálp fyrir börnin. „Í raun var það fyrir harðfylgi barnaverndarnefndar sem aðstoð fékkst.“

Ættingjarnir ákváðu að segja sögu fjölskyldunnar með þá von í brjósti að þessi mál verði tekin til endurskoðunar.

Hvernig komið er fram við börn í svona aðstöðu skiptir máli. Þau verður að taka trúanleg og taka á málum af festu. Hagur barna hlýtur að standa hagsmunum foreldra framar.

Í máli fjölskyldunnar voru börnin send heim þegar þau höfðu sagt frá ofbeldinu og þau síðan sótt daginn eftir. „Börnin voru lafhrædd þessa nótt,“ segja ættingjarnir. Það átti ekki að senda þau heim.

Börnin voru boðuð í skýrslutöku hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, þrátt fyrir að dómarar hefðu getað valið Barnahúsið. „Þau tala enn um það þegar þau fóru í héraðsdóm, svo erfið lífsreynsla var þetta,“ segja ættingjarnir. Það var óþarfa álag.

Við skýrslutökuna greindu börnin frá hrottalegu líkamlegu og andlegu ofbeldi. Faðirinn hótaði þeim með loftskammbyssu. Hann aflífaði gæludýrið þeirra.

„Hann er bara fárveikur. Vitnar stöðugt í Biblíuna og Hitler og talar mikið um [George W.] Bush og hryðjuverk.“

Rannsókn lögreglu lá niðri frá því í vor og þar til fjölmiðlar greindu frá málinu.

Hvernig stendur á því? Hvaða mál eru mikilvægari en börnin?