Dubai Miðlarar fylgjast með gengi hlutabréfa í kauphöllinni í Dubai. Ekki eru allir sannfærðir um ágæti vestrænna fjárfestinga opinberra sjóða frá ríkjunum við Persaflóa. Sjóðirnir hafa verið gagnrýndir fyrir að vilja ekki greiða nægilega góð laun til hæfileikafólks og fyrir reynsluleysi.
Dubai Miðlarar fylgjast með gengi hlutabréfa í kauphöllinni í Dubai. Ekki eru allir sannfærðir um ágæti vestrænna fjárfestinga opinberra sjóða frá ríkjunum við Persaflóa. Sjóðirnir hafa verið gagnrýndir fyrir að vilja ekki greiða nægilega góð laun til hæfileikafólks og fyrir reynsluleysi. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is NÚ þegar Sjeik Mohammed Bin Khalifa Al-Thani hefur fjárfest í Kaupþingi og Alfesca hefur innreið risanna við Persaflóa formlega verið hafin á íslenskan hlutabréfamarkað.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

NÚ þegar Sjeik Mohammed Bin Khalifa Al-Thani hefur fjárfest í Kaupþingi og Alfesca hefur innreið risanna við Persaflóa formlega verið hafin á íslenskan hlutabréfamarkað. Sumir hafa áhyggjur af innreið fjármagns ríkjanna við Persaflóa inn á vestræna markaði.

Sex ríki við Persaflóa, Abu Dhabi, Dubai, Kúveit, Katar og Sádi-Arabía fara fyrir næstum helmingi af opinberum fjárfestingarsjóðum ríkja heimsins. Eru eignir sjóða þessara ríkja metnar á 1.300 milljarða dollara, sem er jafn mikið og samanlagðar eignir allra vogunarsjóða heimsins og meira en 1.000 milljarða dollara samanlögð hlutabréfaeign einkageirans. Morgan Stanley hefur spáð því að auður ríkjanna muni vaxa um 400 milljarða dollara árlega næstu ár.

Færa sig of langt upp á skaftið

Í Businessweek fyrr á þessu ári kom fram að reynsluboltarnir á Wall Street hafa miklar áhyggjur af því að sjóðirnir við Persaflóa séu farnir að færa sig of langt upp á skaftið, og fari of geyst í fjárfestingar í hlutabréfum. Það að kaupa og reka fyrirtæki sé allt annar hlutur en að eiga óvirka eignarhluti í þeim. Nemir A. Kirdar, forstjóri Investcorp í Bahrain, segir að sjóðir við Persaflóa eigi að „reiða sig á fagmenn við rekstur fyrirtækja.“ En mannauður sjóðanna hefur sætt mikilli gagnrýni.

Viðvaningar frá Katar

Í nóvember í fyrra kölluðu nokkrir bankamenn fjárfestingarsjóð Katars „sjóð viðvaninga“ eftir að sjóðurinn hætti við 19 milljarða dollara fjárfestingu í bresku matvörukeðjunni Sainsbury's á allra síðustu stundu. „Katar hefur komið óorði á fjárfesta frá Mið-Austurlöndum,“ sagði einn viðmælandi Businessweek.

Reynsluleysi hjá fjárfestingarsjóðum við Persaflóa birtist í launagreiðslum þeirra til starfsmanna. Í sögulegu samhengi hafa þeir ekki verið tilbúnir að greiða nærri því jafn góð laun og eignastýringarsjóðir í einkageiranum fyrir gott starfsfólk, stefna sem hefur verið hindrun í leit þeirra að hæfileikaríku starfsfólki og leitt til mikillar starfsmannaveltu.

Sjóðirnir við Persaflóa bíða taugaspenntir eftir þeim tímapunkti þegar tekjur vegna olíu fara að dragast saman. Áratugum saman hafa sjóðirnir aðallega fjárfest í öruggum fjárfestingum eins og bandarískum ríkisskuldabréfum.

Um þessar mundir eru sjóðirnir að búa sig undir ný, fjölbreytt hagkerfi sem geta ekki aðeins reitt sig á olíu. Því má búast við frekari fjárfestingum risanna á vestrænum hlutabréfamörkuðum. Að mati margra var leiðin til þess að tryggja slíkt aukin áhætta í fjárfestingum. Með breyttri heimsmynd í kjölfar hruns á mörkuðum verður tíminn einn að leiða í ljós hvort það verður raunin.