Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is YFIR 2.000 börn hafa fengið inni á frístundaheimilum ÍTR við grunnskóla Reykjavíkur en enn eru um 750 börn á biðlista og um 60 starfsmenn vantar til að fullnægja eftirspurninni.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

YFIR 2.000 börn hafa fengið inni á frístundaheimilum ÍTR við grunnskóla Reykjavíkur en enn eru um 750 börn á biðlista og um 60 starfsmenn vantar til að fullnægja eftirspurninni.

Steingerður Kristjánsdóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu tómstundamála hjá ÍTR, segir að hlutirnir gangi hratt fyrir sig þessa dagana og mörg frístundaheimili hafi tæmt biðlista sína. Því miður eigi það samt ekki við þau öll.

Úrræða leitað

„Ég hef fullan skilning á aðstöðu fólks,“ segir Steingerður um biðlistana. „Ég skil þetta sérstaklega með yngstu börnin, sex og sjö ára, og sem fjögurra barna móðir get ég algerlega sett mig í þeirra spor.“

Steingerður segir að meðan staðan sé svona hafi fólk almennt ekki mörg úrræði. Stundum geti foreldrar bekkjarsystkina í sömu aðstöðu komið upp einhverri tímabundinni skiptidagskrá. Rætt hafi verið um að fá dagmæður til að taka þessi börn að sér og hún hafi sjálf góða reynslu af slíku fyrirkomulagi. Sumir ráði framhaldsskólanema og aðrir hafi aðgang að ættingjum en þessi úrræði séu ekki allra. Vinnuhópur á vegum borgarinnar sé að reyna að leita nýrra leiða í þessu ástandi, sem skapist orðið á hverju hausti og foreldrar séu orðnir langþreyttir á.

Steingerður bendir á að unnið hafi verið að því undanfarin ár að bæta starfsumhverfi, starfskjör, símenntun starfsmanna og ýmislegt annað sem snúi að starfsfólki frístundaheimila í þeim tilgangi að halda í starfsmenn og laða fleiri að. Liður í því hafi verið ákvörðun um að reka heimilin allt árið og það hafi gefið góða raun.

Valkvætt verkefni

ÍBR gerir reglulegar ánægjukannanir og segir Steingerður að þjónustan sé mjög vel metin. Í því sambandi nefnir hún að í sumar hafi 93% foreldra verið sammála eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að dvöl á frístundaheimili hefði jákvæð, félagsleg áhrif á barnið. 90% foreldra hefðu talið að börnin væru frekar ánægð á heimilunum.

Steingerður áréttar að frístundaheimili sé valkvætt verkefni sveitarfélaga en engu að síður sé reynt af fremsta megni að koma til móts við íbúana í þessu efni.

Starfsfólk heimilanna á öllum aldri

STARFSFÓLK á frístundaheimilum Reykjavíkur er á öllum aldri en miðað er við að það sé ekki yngra en 20 ára, þótt undantekningar séu frá því.

Vel á fjórða tug frístundaheimila er við grunnskóla borgarinnar með það að markmiði að bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir 6–9 ára börn að loknum skóladegi. Vinnutíminn er frá um klukkan 13:30 til um klukkan 17:15 alla skóladaga.

Steingerður Kristjánsdóttir, verkefnisstjóri hjá ÍBR, segir að á undanförnum árum hafi margt verið gert til þess að bæta starfsaðstöðuna og umgjörð vinnunnar í þeim tilgangi að gera starfið aðlaðandi fyrir fleiri en hingað til. Hún bendir á að í fyrra hafi elsti starfsmaðurinn verið um áttrætt.