Eftir Láru Ómarsdóttur lom@24stundir.is Rannsókn lögreglu á hrottalegu ofbeldi föður gagnvart þremur börnum sínum lá nánast niðri frá því í maí síðastliðnum þar til sagt var frá því í fjölmiðlum í síðustu viku.

Eftir Láru Ómarsdóttur

lom@24stundir.is

Rannsókn lögreglu á hrottalegu ofbeldi föður gagnvart þremur börnum sínum lá nánast niðri frá því í maí síðastliðnum þar til sagt var frá því í fjölmiðlum í síðustu viku. Þetta hafa 24 stundir eftir öruggum heimildum.

Ástæðan álag

Ástæðuna má rekja til mikils álags sem verið hefur á rannsóknardeild lögreglunnar í sumar. Málið er eitt alvarlegasta ofbeldisbrot sem komið hefur inn á borð Barnaverndar en börnin máttu þola ofbeldið í um þrjú ár eða allt þar til elsta barnið brotnaði saman í febrúar og greindi fjölskyldumeðlimi frá því sem fór fram inni á heimilinu. Fram að þeim tíma hafði Barnavernd haft afskipti af fjölskyldunni vegna óreglu föður og því sem þá var talið vanræksla.

Skriður kemst á málið

Eins og 24 stundir hafa greint frá er faðirinn grunaður um að hafa beitt börn sín miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi meðal annars með því að beita eggvopnum gegn einu þeirra og hóta börnunum lífláti með loftskammbyssu. Þá hreytti hann stöðugt í þau ókvæðisorðum og lét skap sitt bitna á þeim. Fjölskylda barnanna sagðist í samtali við 24 stundir í gær undrast hve langan tíma rannsókn málsins hefur tekið en það var kært til lögreglu um miðjan febrúar.

Skýrslur voru teknar af börnunum þremur í vor og fljótlega eftir það var faðirinn færður til yfirheyrslu.

Rannsókn að ljúka

Framvinda málsins var lítil eftir það eða þar til í síðustu viku þegar Stöð 2 greindi frá málinu í fréttum. Nú er rannsóknin hins vegar á lokastigi en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mun henni ljúka fyrir helgi. Réttargæslumaður barnanna mun birta föðurnum bótakröfu þeirra í dag, fimmtudag, og að því loknu verður málið sent áfram til ákærusviðs lögreglunnar. Líklegt er talið að faðirinn verði ákærður fyrir alvarlega líkamsárás.
Í hnotskurn
Faðirinn verður líklega ákærður fyrir alvarlega líkamsárás Hámarksrefsing fyrir líkamsárás er allt að 16 ára fangelsi samkvæmt almennum hegningarlögum Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu lýkur rannsókn málsins fyrir helgi og verður það þá sent til ákærusviðs lögreglunnar sem tekur ákvörðun um framhaldið.