[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ kemur ekkert sérstaklega á óvart að Emilíana Torrini skuli vera í efsta sæti tónlistans aðra vikuna í röð með nýjustu plötu sína Me and Armini . Þar er nefnilega á ferðinni hin allra fínasta plata frá einu af vinsælustu óskabörnum þjóðarinnar.

ÞAÐ kemur ekkert sérstaklega á óvart að Emilíana Torrini skuli vera í efsta sæti tónlistans aðra vikuna í röð með nýjustu plötu sína Me and Armini . Þar er nefnilega á ferðinni hin allra fínasta plata frá einu af vinsælustu óskabörnum þjóðarinnar. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er Emilíana annars á tónleikaferðalagi um þessar mundir, en hún er meðal annars á leiðinni til Amsterdam, Parísar, Brussel og Utrecht áður en hún heldur ferna tónleika í Þýskalandi.

Tónlistin úr kvikmyndinni Mamma Mia! situr sem fastast í öðru sætinu, en eins og flestir ættu að vera farnir að vita er um að ræða gömul ABBA-lög á borð við „Waterloo“, „Dancing Queen“ og „Voulez-Vous“. Tónlistin virðist því ekkert síður vinsæl en bíómyndin sem sló nýverið met Mýrarinnar , og er nú orðin tekjuhæsta mynd í íslenskum kvikmyndahúsum frá því mælingar hófust.

Sigurður Guðmundsson og Memfismafían njóta sívaxandi vinsælda, en platan Oft spurði ég mömmu er nú komin í þriðja sætið eftir að hafa setið í því tíunda í síðustu viku. Þar er líka á ferðinni frábær plata með hreint út sagt yndislegum lögum.

Loks vekur athygli að ný plata Metallica nær aðeins sjötta sætinu. Er þungarokkið kannski dautt?

Tekur Hjaltalín fleiri lög Palla?

MEÐLIMIR hljómsveitarinnar Hjaltalín sjá varla eftir því að hafa tekið lag Páls Óskars, „Þú komst við hjartað í mér“, og gert að sínu, því lagið er orðið það langvinsælasta sem sveitin hefur sent frá sér. Það situr nú í efsta sæti lagalistans aðra vikuna í röð, en alls hefur lagið setið á listanum í tíu vikur. Það er því spurning hvort Hjaltalín ætti ekki að taka sig til og gera fleiri lög Páls Óskars að sínu, til dæmis „Minn hinsti dans“ eða „TF-Stuð“.

Snillingarnir í Baggalúti gera þó nokkuð harða atlögu að Hjaltalín því þeirra nýjasta nýtt, „Stúlkurnar á internetinu“, stekkur upp í annað sætið. Texti lagsins er sérlega áhugaverður en það byrjar á línunum „Þær búa alnetinu á – innlyksa hver í sinni skrá – þær eru fjarska fallegar – fullkomlega stafrænar – og allir blíðu þeirra þrá.“

Þá vekur athygli að gömlu rokkararnir í áströlsku hljómsveitinni AC/DC eru komnir í sjöunda sætið með lagið „Rock 'n' Roll Train“ sem er fyrsta smáskífulagið af væntanlegri plötu þeirra félaga. Platan sú mun koma til með að heita Black Ice og verður fimmtánda plata sveitarinnar, en hún er væntanleg í verslanir hinn 20. október.

Loks má benda á að bæði Vilhjálmur heitinn Vilhjálmsson og Emilíana Torrini eiga ný lög á lista.