Hrannar Pétursson
Hrannar Pétursson
„Áframhaldandi veiking krónunnar er frétt vikunnar, þótt hún ætti kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að svipaðir hlutir hafa ítrekað gerst á árinu í lok uppgjörstímabila,“ segir Hrannar Pétursson, forstöðumaður almannatengsla hjá...

„Áframhaldandi veiking krónunnar er frétt vikunnar, þótt hún ætti kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að svipaðir hlutir hafa ítrekað gerst á árinu í lok uppgjörstímabila,“ segir Hrannar Pétursson, forstöðumaður almannatengsla hjá Vodafone, þegar hann er inntur eftir því hvaða frétt honum finnist hafa staðið upp úr í vikunni. „Það eru skelfilegar fréttir að gengisvísitalan sé dansandi í kringum 180 stig og ef þessi þróun snýst ekki við er ljóst að áhrifin á bæði fyrirtæki og almenning verða mjög alvarleg. Ég rak augun í frétt þess efnis að bílasalar hafi gefist upp á verðmerkingum í íslenskum krónum og það segir sitt um þann mikla óstöðugleika sem ríkir á gjaldeyrismarkaði.“

Hrannar segir að þau batamerki sem orðið hafi á kauphallarvísitölum víða um heim séu hins vegar góðar fréttir og það sé gaman að sjá þá íslensku mjakast upp – vonandi komi ekki bakslag í þá þróun. „Kaup Mohammed Bin Khalifa Al-Thani á 5 prósenta hlut í Kaupþingi hljóta einnig að teljast til frétta vikunnar en mér finnst merkilega lítið hafa farið fyrir umfjöllun um þau viðskipti. Kannski falla þau í skuggann af málum sem standa almenningi nær – hækkandi verðlagi og krepputali.“

Hrannar segir að hið hræðilega þurrmjólkurmál frá Kína standi upp úr erlendum fréttum, sem og fjöldamorðin í Finnlandi.

sigrunerna@mbl.is