[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kannski er það einföldun að tala um tvo mismunandi hópa sem stunda lyftingar hérlendis. Annars vegar er sú tegund kraftakarla sem bryðja stera í öll mál og standa gjarnan vaktir í dyravörslu um helgar.

Kannski er það einföldun að tala um tvo mismunandi hópa sem stunda lyftingar hérlendis. Annars vegar er sú tegund kraftakarla sem bryðja stera í öll mál og standa gjarnan vaktir í dyravörslu um helgar. Hins vegar þeir sem taka íþróttina af fúlustu alvöru og hafna öllum þeim meðulum sem vinsæl eru innan greinarinnar. Sá hópur vill fá viðurkenningu frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

„Við erum á áætlun með þetta allt saman og gælum við að ganga formlega í ÍSÍ í febrúar eða mars á næsta ári,“ segir Guðjón Hafliðason, varaformaður Kraftlyftingasambands Íslands, en sambandið rær nú að því öllum árum að verða viðurkennt og löglegt með inngöngu í Íþróttasamband Íslands en til þess arna þarf þátttöku fimm aðildarfélaga og gengur sú vinna vel að sögn Guðjóns enda vaxandi áhugi hérlendis á kraftlyftingum sem hluta af almennri hreysti.

Akureyri og Keflavík fyrst

Kraftlyftingasamband Íslands hefur um árabil verið utan Íþróttasambands Íslands og eru fyrir því allnokkrar ástæður. Sú helsta þó aðeins sú að áhugi á inngöngu var ekkert forgangsatriði lengi vel en nú þykir það brýnt, bæði til að fá viðurkenninguna sem því fylgir en eins til að efla og bæta íþróttina enn frekar en orðið er.

Guðjón segir uppgang mikinn í kraftlyftingum bæði norður á Akureyri og einnig í Reykjanesbæ. „Sóknarsprotarnir eru helstir á þessum tveimur stöðum en að auki er áhugi innan Breiðabliks í Kópavogi á að koma á fót kraftlyftingadeild. Þetta eru þau svæði sem við horfum á hvað varðar þau fimm aðildarfélög sem til þarf og það er takmark núverandi stjórnar KRAFT númer eitt, tvö og þrjú að komast inn hjá ÍSÍ. Að koma okkur og íþróttinni aftur á kortið enda höfum við allt of lengi staðið

til hliðar og sem algert jaðarsport þó okkur virðist áhuginn víða mun meiri en svo að það sé eðlilegt. Inngangan leyfir okkur að halda Íslandsmeistaramót og kynna okkur á ýmsan þann máta sem við eiginlega getum ekki eða illa í dag.“

Ekki sama Jón og séra Jón

En það er ein ástæða til viðbótar fyrir því að Kraftlyftingasambandið vill inn í hina opinberu íþróttafjölskyldu og það viðurkennir Guðjón fúslega. „Gegnum tíðina hefur verið ákveðinn stimpill á kraftlyfingum, að hana stundi bara steraboltar, og ímyndin kannski ekki verið alveg eins og við viljum hafa hana. Margir hafa þá sýn á fólk sem hefur gaman af kraftlyftingum að það sé sama fólk og stendur við dyrnar á skemmtistöðunum um helgar. Við vonumst til að með þessu megi að einhverju leyti breyta þeirri ásýnd enda langt í frá að svo sé. Kraftlyftingafólk kemur úr öllum geirum samfélagsins og nægir í raun að benda á að lyftingar með einhverjum hætti eru orðnar að þungamiðju alls kyns íþróttaæfinga eins og sjá má í golfi, körfubolta eða öðrum vinsælum íþróttum. Það er ekki síst út af því sem við erum vissir um að vinsældirnar eru mun meiri en tölur sýna og að sóknarfæri séu til staðar. Auðvitað verða hins vegar alltaf einhverjir sem vilja standa utan við félag eins og KRAFT og nota til uppbyggingar efni sem ekki eru leyfileg en það er bara í góðu lagi okkar vegna. Við eigum ekkert í stríði við þá sem það vilja heldur erum félagsskapur sem vill vera án slíks og fara hundrað prósent eftir þeim reglum og lögum sem gilda og með það að leiðarljósi eigum við fullt erindi inn í Íþrótta- og ólympíusamband Íslands.“
Í hnotskurn
Kraft var sett á stofn árið 1998 og er hugsað sem hagsmunasamtök og félagsskapur manna með áhuga á kraftlyftingum. Félagið hefur um árabil verið meðlimur Alþjóðakraftlyftingasambandsins og uppfyllir allar kröfur sem þar eru gerðar. Aðild að ÍSÍ gefur þeim heimild til að halda Íslandsmeistaramót.