— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ágúst Inga Jónsson aij@mbl.is STULDUR á vörum í verslunum hefur vaxið stórlega á síðustu mánuðum og gagnrýnir framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu lögregluna fyrir úrræðaleysi.

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

STULDUR á vörum í verslunum hefur vaxið stórlega á síðustu mánuðum og gagnrýnir framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu lögregluna fyrir úrræðaleysi. Hann segir vandann snúa að erlendum glæpagengjum sem steli úr verslunum á skipulagðan hátt. Hér sé ekki um að ræða erlenda farandverkamenn eða Íslendinga, þó alltaf sé talsvert um að almenningur komi við sögu og þekkt sé, að þegar kreppi að þá aukist hnupl.

„Þessi erlendu gengi sem koma hingað með reglubundnum hætti gagngert til þess að stela valda versluninni sífellt meiri búsifjum,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ. „Úrræðaleysi lögreglunnar er sérstakt áhyggjuefni og í raun er myljandi óánægja innan verslunarinnar með þjónustu lögreglunnar. Eins og þessu er lýst fyrir mér þá stefnir í algeran voða.“

Myndir ekki nægjanlegar fyrir lögreglu

Hann nefnir sem dæmi að gripdeildir á bensíni og olíu hafi færst mjög í aukana. Menn komi á bensínstöð, dæli á bíla og stingi svo af. „Lögreglan sinnir þessu ekki og segir einfaldlega að þeir geti ekki átt við þetta. Jafnvel þó mynd af númeraplötu og viðkomandi ökumanni hafi náðst í öryggismyndavél. Þetta gerist trekk í trekk, en lögreglan segist ekkert geta gert,“ segir Andrés.

Hann er spurður um orð Ómars Smára Ármannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns sem kallaði í Morgunblaðinu á þriðjudag eftir því að verslunin vaknaði og sagði ljóst að menn hefðu verið sofandi á verðinum. Besta forvörnin væri gott öryggi í verslunum og tryggja þyrfti að öryggismyndavélar væru til staðar og af þeim gæðum að hægt væri að þekkja viðkomandi á upptökum.

„Það er fráleitt að halda því fram að verslunin hafi sofið á verðinum. Allar stærri verslanir og þjónustufyrirtæki hafa öryggismyndavélar og annan slíkan búnað, enda er stórt og mikið hagsmunamál fyrir verslunina að berjast gegn þessum ófögnuði. Það er léttvægt fyrir lögregluna að kasta ábyrgðinni yfir á verslunina, en þau mörgu dæmi sem við höfum um að lögreglan hafi ekki staðið sig í stykkinu sýna að þar á bæ þurfa menn virkilega að taka sig á,“ segir Andrés.

Tuttugu eins pakkar sendir til Litháen á skömmum tíma

Smávara eins og snyrtivara hefur verið eftirsótt af þessum gengjum og apótek og snyrtivöruverslanir finna fyrir þessu í auknum mæli. „Það kemur kannski fjögurra manna hópur í verslunina. Varan er tekin úr pakkningunni, þannig að strikamerkið fer ekki í gegnum skanna við útganginn og pakkningarnar eru skildar eftir tómar í hillunum. Þetta er útspekúlerað lið sem beitir alls konar aðferðum og kann sitt fag til hins ýtrasta og veit hvernig á að dreifa athygli starfsmanna,“ segir Andrés.

„Það vill svo til að ég er ræðismaður fyrir Litháen og þekki málið því frá fleiri hliðum,“ segir Andrés. „Í fyrra kom hingað gengi frá Litháen og ég þurfti að eiga samskipti við lögreglu hér til að upplýsa sendiráðið í Kaupmannahöfn. Þá kom í ljós að á mjög stuttum tíma höfðu farið tuttugu 20 kílóa sendingar í gegnum póstinn hér á sama heimilisfang í Litháen. Í ljós kom að í pökkunum var fyrst og fremst snyrtivara, sportfatnaður og tískuvara. Þarna var greinilega um skipulagða brotastarfsemi að ræða,“ segir Andrés.

Frjáls för fólks frá Búlgaríu og Rúmeníu

Hann segist hafa sérstakar áhyggjur af því að um áramót rennur út undanþáguákvæði um frjálsa för fólks frá Búlgaríu og Rúmeníu inn á Evrópska efnahagssvæðið. Þá muni aukast hér komur fólksfrá þessum löndum sem hafi misjafnt orð á sér.

„Við erum í startholunum með að herja meira á lögreglu og dómsmálayfirvöld um að sinna versluninni betur hvað þjófnaði varðar. Mörg mál, stór og smá, eigum við í mestu vandræðum með að fá fylgt eftir,“ segir Andrés Magnússon.

Sátt gerð við hnuplara á staðnum

ÞEIM sem staðnir verða að búðarhnupli á næstu mánuðum verður boðin sátt á staðnum sé verðmæti þýfisins undir 50 þúsund krónum. Samtök verslunar og þjónustu vinna að þessu verkefni í samvinnu við lögreglu. Með þessu vilja samtökin sýna frumkvæði til að stemma stigu við vaxandi búðarhnupli og létta álagi af lögreglu.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að starfshópur innan samtakanna vinni að þessu verkefni. Verkefnið er kallað endurheimt verðmæta og er unnið að breskri fyrirmynd, en þar í landi kallast það „civil recovery“. Ráðgert er að því verði hleypt af stokkunum í haust.

„Í stuttu máli gengur hugmyndin út á það að þjófum eða hnuplurum verði gefinn kostur á að afgreiða mál með sátt á staðnum þegar um er að ræða búðarhnupl að verðmæti allt að 50 þúsund krónur. Sérstakir starfsmenn hjá verslunarfyrirtækjum fá vottun um að þeir megi ganga frá svona samkomulagi í samráði við öryggisverði,“ segir Andrés Magnússon.

Vandinn eykst með versnandi ástandi í efnahagsmálum

„ÞETTA hefur alltaf verið vandamál og þjófnaður í verslunum alltaf verið til staðar en hann óneitanlega eykst með versnandi efnahagsástandi,“ segir Svava Johansen, forstjóri NTC. Fyrirtækið rekur 19 tískuvöruverslanir í Kringlunni, Smáralind og á Laugaveginum og segir Svava að ekki sé marktækur munur hvað þjófnað varðar eftir svæðum.

„Við höfum farið í gegnum nokkrar svona efnahagssveiflur og þekkjum þennan rytma,“ segir Svava. Hún segir að öryggisbúnaður hafi verið aukinn í verslunum fyrirtækisins og sérstakur öryggisstjóri hefur verið ráðinn.

„Við erum komin með mjög öflugt öryggiskerfi sem beint er að ákveðnu svæði í verslunum okkar ef eitthvað sérstakt fer í gang, bæði á kassa og inni í versluninni,“ segir Svava. Hún nefnir sem dæmi að öryggismyndavélar séu fyrir framan mátunarklefa og fylgst sé með því hversu mikið fólk fer með inn í klefann og með hvað það kemur út úr honum.

Öryggi aukið að gefnu tilefni

„Við teljum að við höfum varið okkur ágætlega og höfum lagt mikla áherslu á öryggisþáttinn með versnandi tíma í huga. Við höfum í rauninni aldrei verið eins vel sett hvað öryggiskerfin varðar og því miður var það að gefnu tilefni.“

Hún segir að bæði Íslendingar og útlendingar eigi í hlut. „Hjá okkur hafa nokkrir hópar útlendinga verið áberandi. Vegna fyrri reynslu höfum við verið sérstaklega á varðbergi gagnvart þeim. Því miður eru það alltaf einhverjir örfáir sem sverta heila þjóð,“ segir Svava Johansen.

Suma skiptir engu máli þótt væli í öryggishliðum

„SUMIR eru svo bíræfnir að þá skiptir engu þótt væli í öryggishliðum, þeir hlaupa bara út í bíl sem bíður fyrir utan og svo er ekið á fleygiferð í burtu,“ segir Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju, um stuld úr lyfjabúðum fyrirtækisins. Hann tekur fram að ekki séu mörg dæmi um svona framkomu en þetta sé þó meðal þess sem við er að glíma.

Hann segir að hrinan hafi náð hámarki í fyrra en á þessu ári hafi heldur dregið úr þó svo að vandinn sé enn gríðarlegur.

Sigurbjörn segir að stöðugt sé unnið að því hjá fyrirtækinu að auka öryggi í verslunum fyrirtækisins til að draga úr glæpum. „Við erum með öryggismyndavélar í nánast öllum okkar verslunum, öryggisverðir eru á kvöldin í þeim verslunum sem eru opnar til miðnættis. Vörur hafa verið færðar til og við höfum reynt að innleiða nýjar aðferðir,“ segir Sigurbjörn. Hann segir hlutskipti lögreglunnar erfitt. Til dæmis fari góss í mörgum tilvikum á haugana þar sem ekki sé hægt að sanna með óyggjandi hætti hvaðan varan er komin.

Sigurbjörn segir að í fyrrasumar hafi erlend glæpagengi verið áberandi en í ár hafi heldur dregið úr. „Enn er búðarþjófnaður samt gríðarlegt vandamál hjá okkur. Oft eru 2-3 saman með litla bakpoka eða í víðum úlpum. Þegar þeir koma inn í verslunina dreifa þeir sér gjarnan og 1-2 ná athygli starfsfólks meðan sá þriðji athafnar sig. Oft rífa þjófarnir vöru úr umbúðum sem öryggismerkið er á og skilja tóma pakkningu eftir í hillunni,“ segir Sigurbjörn Gunnarsson.

Heldur hefur dregið úr bensínþjófnaði

„VIÐ sáum fyrri hluta sumars að þjófnaður á bensíni var vaxandi vandamál. Við brugðumst hart við, öryggisbúnaður var aukinn, málin voru kærð og stuldurinn var settur í innheimtu enda ekki sanngirni í öðru gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins,“ segir Hermann Guðmundsson forstjóri N1.

Hann segir að eitthvað hafi dregið úr þessum þjófnaði án þess að hann viti hver ástæðan sé. „Það er þó ljóst að þegar verðið á eldsneyti er eins svívirðilega hátt og verið hefur síðustu mánuði þá skiptir tankur af bensíni eða olíu fólk máli, en við líðum ekki að fólk stundi þessa iðju.“

Aðspurður um þjófnað í öðrum verslunum fyrirtækisins segir Hermann að N1 sé með um 90 þúsund vörunúmer á boðstólum og alltaf sé eitthvað um þjófnað. Undanfarna mánuði höfum við til dæmis orðið varir við nokkuð af þjófnuðum í bílabúðum fyrirtækisins. Þá er algengt að 4-5 einstaklingar komi inn í verslunina og hluti hópsins truflar starfsfólk meðan aðrir hlaða á sig vörum. Við höfum staðið svona gengi að verki og í öllum þessum tilvikum hefur verið um útlendinga að ræða,“ segir Hermann.

Stolið úr verslunum fyrir 2,5 milljarða

STOLIÐ er úr íslenskum verslunum fyrir um 2.500 milljónir króna á ári og kostnaður sem verslanir verða fyrir vegna þjófnaða, mistaka og öryggisviðbúnaðar er yfir 3.000 milljónir króna árlega, eða um 10 þúsund kr. á hvern Íslending, samkvæmt alþjóðlegri könnun frá síðasta ári.

Búðaþjófnaður hafði minnkað um 5,7% á milli ára hér á landi en það er meiri minnkun en í öðrum ríkjum Evrópu. Það sem gerst hefur á undanförnum mánuðum með tilkomu erlendra gengja sem koma hingað í þeim tilgangi að stunda skipulega glæpastarfsemi breytir örugglega þessari mynd, segja forystumenn SVG.