Skúli K. Skúlason stýrir stærsta bílaumboði landsins. Guðmundur Sverrir Þór bregður upp svipmynd af honum.

Fullyrða má að landslagið hafi breyst töluvert á íslenskum bílamarkaði á undanförnum mánuðum. Ekki er langt síðan eitt umboð bar höfuð og herðar yfir önnur en samkvæmt nýlegum sölutölum hafa fleiri en eitt umboð farið fram úr því. Nú er Nissan, sem Ingvar Helgason hefur umboð fyrir, orðið eitt söluhæsta bílmerki landsins, var t.a.m. söluhæst í ágúst.

„Ég er sannfærður um að sú mikla fjárfesting og sú gríðarlega vinna sem nýir eigendur og starfsfólk hafa varið til uppbyggingar í þjónustu við viðskiptavini sé að skila sér í aukinni sölu,“ segir Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri Ingvars Helgasonar, um góða stöðu fyrirtækisins á bílamarkaði. Hann bætir við að fyrirtækið hafi tekið allt gæðaferlið fyrir auk þess að taka markaðsmálin föstum tökum. „Ég tel að öll þessi atriði og raunar fleiri eigi stærstan þátt í aukinni velgengni okkar.“

Úr Vogunum

Skúli fæddist í Reykjavík árið 1959 og ólst upp í Vogahverfi. Að loknum grunnskóla hóf hann nám í bifvélavirkjun og réð sig að því loknu til Ventils hf. árið 1979. Ventill er undanfari bílaumboðsins Brimborgar og því eru liðin nær þrjátíu ár síðan Skúli hóf störf í bílgreininni. Fyrsti stansinn var þó stuttur.

„Um ári eftir að ég byrjaði hjá Ventli bauðst mér að taka að mér véladeild Vífilfells, þar sem ég hafði starfað mörg sumur meðan ég var enn í námi. Hjá Vífilfelli var ég í tíu ár; frá 1981 til 1991, sem deildarstjóri véladeildar auk þess sem ég sinnti markaðs- og sölustjórnun fyrir kæli- og gosvéladeildina,“ segir Skúli.En hvernig stóð á því að leið hans lá aftur í bílgreinina?

„Þannig var að eftir að ég hafði tekið ákvörðun um að hætta hjá Vífilfelli var mér boðið að taka að mér framkvæmdastjórn yfir nýju félagi í eigu Coca Cola og Ringnes í Noregi. Ég fór út til skrafs og ráðagerða og kom aftur heim með tilboð í vasanum.

Morguninn eftir að ég heim hafði Bogi Pálsson hjá Toyota samband og vildi fá að hitta mig, en við áttum sameiginlegan vin sem hafði sagt Boga frá mér. Ég sagði Boga að ég væri nú eiginlega búinn að lofa mér, en hann vildi samt fá að hitta mig. Það varð úr að ég réð mig til Toyota og hef aldrei séð eftir því enda magnaður skóli að vinna með mönnum eins og Boga og Emil Grímssyni, sem og því stjórnunarteymi sem þar varð til.“

Hjá Toyota var hann í þrettán ár en árið 2005 fór Skúli yfir til Arctic Trucks, sem framkvæmdastjóri og hluthafi. Hann tók þátt í að byggja það fyrirtæki upp en fór svo yfir til Ingvars Helgasonar í apríl 2007. Þar tók hann við stöðu framkvæmdastjóra sölusviðs en var í júní sl. skipaður framkvæmdastjóri IH.

Mikið á fjöllum

Skúli segir ferðalög um hálendi Íslands á breyttum bílum hafa verið helsta áhugamál sitt síðastliðin 20 ár en jafnlengi hafi hann verið með kvikmyndadellu og hefur hann að eigin sögn verið að þróa bæði eigin tækni og þekkingu á því sviði. „Ég hef aðallega verið að gera ferðamyndir og síðan eitthvert skemmtiefni fyrir uppákomur eins og árshátíðir og stórafmæli félaga og vina,“ segir Skúli og bætir við að hann og eiginkona hans, Sigurlaug S. Einarsdóttir, skrifstofustjóri hjá Heilsugæslu Mosfellsbæjar, hafi ásamt góðum vinahópi gaman af gönguferðum. „Síðustu fimm árin hef ég síðan verið með mótorhjóladellu, sem hefur heltekið mig. Ég nýt þess að stökkva á fákinn fyrirvaralaust og hjóla eitthvað út í buskann, en þannig finnst mér gott að hreinsa hugann og hugsa nýja hluti.“ sverrirth@mbl.is