MARGT athyglisvert kemur í fram í viðtali við Róbert Sighvatsson, þjálfara Víkings, hér fyrir ofan.

MARGT athyglisvert kemur í fram í viðtali við Róbert Sighvatsson, þjálfara Víkings, hér fyrir ofan. Einna athyglisverðust er sú fullyrðing hans að nóg sé til af ungum handknattleiksmönnum hér á landi til þess að skipa fleiri lið en þau sextán nú keppa í á Íslandsmótinu í karlaflokki í tveimur deildum. Aðeins vanti félögin svo þessir piltar fái tækifæri. Leikmannahópar nokkurra liða eru fjölmennir auk þess sem margir komast aldrei að. Einnig hefur ríkt tregða við að lána leikmenn á milli félaga, hverjum svo sem um er að kenna.

Góð reynsla hefur verið af svokölluðu venslafélagasamstarfi í knattspyrnu hér á landi síðustu ár. Má þar nefna samstarf HK og Ýmis, Víkings og Berserkja, Hauka og ÍH, Aftureldingar og Hvíta riddarans og Breiðabliks og Augnabliks, svo aðeins fáein dæmi séu tekin. Í þessum tilfellum hafa liðin sameinast um keppnislið í 2. flokki karla en síðan hafa verið lánaðir leikmenn á milli liðanna til keppni í meistaraflokki karla í 3. deild. Þetta hefur aukið breiddina hjá félögunum, minnkað brottfall og síðast en ekki síst hafa menn ílengst innan félaganna, vaxið og dafnað.

Eitthvað þessu líkt þurfa handknattleiksmenn að fara úti í í meira mæli en nú er. Haukar hafa haldið úti yngra liði í 1. deild karla síðustu ár auk þess sem a.m.k. HK hefur sent yngra lið til keppni í utandeildinni. Fleiri lið mættu fylgja fordæmi þeirra. Þá væri hægt að endurvekja gömul félög og auka þar með enn á breiddina hvort sem það yrði að félögin væru sjálfstæð eða ynnu með öðrum. Má þar t.d. sjá fyrir sér samstarf á milli annars hvors Hafnarfjarðarliðsins og ÍH með líkum hætti og í knattspyrnunni.

Handknattleiksíþróttin hefur meðbyr um þessar mundir. Íslandsmótið fer vel af stað og góð aðsókn hefur verið á fyrstu leikina í N1-deild karla og kvenna. Þennan byr verða menn að nýta til að nema ný lönd á meðan tækifærið gefst. Á morgun getur það verið orðið of seint. iben@mbl.is

Eftir Ívar Benediktsson

Höf.: Ívar Benediktsson