Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is „MEÐ þessu móti þurfum við ekki að búa við þetta ófremdarástand sem krónan skapar okkur,“ segir Karl Th.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

„MEÐ þessu móti þurfum við ekki að búa við þetta ófremdarástand sem krónan skapar okkur,“ segir Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar um þá ákvörðun ritstjórnar blaðsins að héðan í frá verði blaðið einvörðungu verðlagt í evrum. Nýjasta tölublaðið kostar þannig tíu evrur í lausasölu en átta evrur í áskrift.

„Við sækjumst eftir því, eins og önnur fyrirtæki í landinu, að það sé nokkur stöðugleiki í rekstri,“ segir Karl og bendir á að stærsti einstaki kostnaðarliðurinn við framleiðslu á Herðubreið felist í prentun og pappírskostnaði, en pappírinn er innfluttur. Með breytingunni takist útgefendum að halda tekjum og útgjöldum að mestu leyti í sama gjaldmiðli.

„Þetta er að sínu leyti líka pólitísk yfirlýsing tímaritsins, sem hefur alltaf talað fyrir inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evrunnar.“ Spurður við hvaða gengi sé miðað segir Karl samkomulag hafa verið gert við söluaðila um að miða við gengi evrunnar daginn sem Herðubreið kom út, þ.e. sl. fimmtudag, en þá var evran 139 krónur.

„Það stenst ekki reglur að verðmerkja einungis í evrum, hvorki vörur né þjónustu,“ segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, og bendir á að í júlí sl. hafi Neytendastofa sett reglur um verðmerkingar þar sem skýrt sé kveðið á um það að verðmerkja eigi allar vörur og þjónustu í íslenskum krónum. Bendir hann á að menn geti kært þá sem brjóti reglurnar til Neytendastofu, en í fyrrgreindum reglum kemur fram að Neytendastofu sé heimilt að beita stjórnvaldssektum eða dagsektum allt að 10 milljónum króna.

Kallar á stöðugan gjaldmiðil

Spurður hvaða áhrif verðmerking í evrum hafi á neytendur segir Gísli ljóst að þetta leysi aðeins gengisáhættu atvinnurekenda og seljenda, ekki neytenda og launþega. „Þannig að ég held að stjórnvöld verði að fara að bjóða upp á gjaldmiðil sem er stöðugur og gjaldgengur þannig að öll gengisáhættan sé ekki sett á neytendur.“