Spenna Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrir miðju, og Reynir Björnsson læknir liðsins fylgjast með æfingunni í gær.
Spenna Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrir miðju, og Reynir Björnsson læknir liðsins fylgjast með æfingunni í gær. — Morgunblaðið/Ómar
FULLYRÐA má að níu af hverjum tíu þjálfurum myndu að öllum líkindum pakka vel í vörn í hreinum úrslitaleik um hvort lið færi á Evrópumótið í knattspyrnu ef jafntefli væri það sem til þyrfti.

FULLYRÐA má að níu af hverjum tíu þjálfurum myndu að öllum líkindum pakka vel í vörn í hreinum úrslitaleik um hvort lið færi á Evrópumótið í knattspyrnu ef jafntefli væri það sem til þyrfti. Ekki þó Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, sem mætir Frökkum í La Roche-sur-Yon í dag.

Eftir Albert Örn Eyþórsson í Frakklandi

albert@mbl.is

Þó að hann fari varlega í að segja nokkurn skapaðan hlut um leikskipulag liðsins eðli málsins samkvæmt hristi hann höfuðið aðspurður hvort íslenska liðið mundi fjölmenna í vörn gegn Frökkum í dag.

„Ég legg ekkert upp með það að halda stiginu heldur að pressa Frakkana og sækja dálítið á þær en auðvitað er undirliggjandi að fá ekki mark eða mörk á sig. Ég vonast til að geta komið þeim aðeins á óvart en strangt til tekið læt ég liðið spila þann leik sem hefur reynst okkur hvað áhrifaríkastur undanfarin misseri og breyti því ekki nema smávægilega nema eitthvað stórvægilegt gerist snemma. Ég útiloka ekkert að pakka í vörn en ég legg ekki upp með það í byrjun.“

Kortlagning Frakklands

Lið Frakklands nú og fyrir ári þegar sigur vannst á því í Laugardalnum er næsta tvennt ólíkt segir Sigurður. „Það eru talsverðar breytingar á franska liðinu frá þeim tíma og reyndar hópnum hjá okkur líka og ómögulegt að bera þann leik saman við leikinn í dag. Ég hef eytt talsverðum tíma í að fara yfir þeirra leik og þeirra styrkleika og veikleika og hef ýmsar hugmyndir sem ég legg fyrir stelpurnar fyrir leikinn. Fyrir liggur að þær þurfa að sigra. Eitt stig dugar ekki til og því munu þær mæta illar til leiks og væntanlega sækja eins stíft og þær geta. Það þarf ekki mörg lýsingarorð um lið þeirra. Það er ekki að ósekju sem þær eru í hópi bestu liða heims og við þurfum að hafa fyrir öllu allar 90 mínúturnar. Það eru heimsklassa leikmenn í liði þeirra en þeir eru líka okkar megin og ég tiltek enga sérstaka manneskju sem ég hef áhyggjur af. Franska liðið er líkt og hið íslenska samansett af mörgum góðum leikmönnum og þær verða okkur erfiðar hvernig sem á það er litið.“

Hólmfríður verður með

Hólmfríður Magnúsdóttir varð fyrir meiðslum á æfingu á fimmtudag en í gærkvöld kom það á hreint að hún verður með. „Hún er einn af lykilmönnum liðsins og hefur leikið aldeilis frábærlega. Skoraði þrennu í síðasta landsleik og þrennu til í bikarúrslitaleiknum heima um síðustu helgi og er okkur mjög mikilvæg. Hún er ennfremur nautsterk og það ýtir henni enginn til hliðar á vellinum,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Ef ætlunarverkið tekst ekki...

Sigurður er stuttur í spuna aðspurður hvað verði ef Ísland ljúki ekki tilætluðu verki í dag gegn Frökkunum. „Það er eitthvað sem við tökum á þá. Hvernig sem leikurinn fer í dag er það enginn endapunktur en ég vil ekkert síður en stelpurnar sjálfar vinna þennan leik og þar með tryggja okkur áfram. Ég hef fulla trú á að stelpurnar geti það.“