Inessa Galante söng tónlist eftir Rakmanínoff, Tsjajkovskí, Catalani, Verdi og fleiri. Jónas Ingimundarson lék með á píanó. Laugardaginn 20. september.

ÞEGAR ég var að ganga inn í Salinn í Kópavogi á laugardaginn frétti ég af því að Inessa Galante, sem var að fara að syngja, væri lasin.

Engan lasleika var þó að heyra á söngkonunni. Frammistaða hennar var á engan hátt síðri en þegar hún kom hingað í desember fyrir tæpum tveimur árum.

Rödd Galante er ótrúleg og býr yfir sjaldgæfri fegurð. Hún er skær, hljómmikil, ögn stelpuleg, sem gerir túlkunina barnslega einlæga. Og tæknin er fullkomin.

Efnisskráin var að vísu í lágstemmdari kantinum, kannski vegna lasleikans. Sjaldan var farið upp á kraftmikla hápunkta, tónlistin var að mestu innhverf og draumkennd. Eiginlega var það ekki fyrr en í lokin að söngkonan lét hvessa í músíkinni. Gaman hefði verið að heyra meiri breidd í tónlistinni.

Í sjálfu sér var tónlistin þó hrífandi fögur. Þarna voru nokkur lög eftir Rakmanínoff, Tsjajkovskí, Stradella, Villa-Lobos og fleiri.

Ég held að ég hafi aldrei heyrt sungið veikt eins fallega og á þessum tónleikum; nema þá á tónleikum sömu söngkonu í hittifyrra!

Ég man ekki betur en að á þeim tónleikum hafi Galante sungið Ave Maríu eftir Caccini. Það gerði hún líka núna. Túlkunin var stórkostleg, ótrúlega tilfinningaþrungin og blæbrigðarík.

Óneitanlega var þetta frábær byrjun á tónleikavetri Salarins.

Jónas Sen

Höf.: Jónas Sen