Ég hef alltaf verið hrifin af haustinu. Það róar mig eftir eirðarleysi í sól og birtu sumarsins. Þegar ég var krakki fannst mér oft erfitt á sumrin að vera innandyra og lesa þegar veðrið var bjart og fallegt úti.
Ég hef alltaf verið hrifin af haustinu. Það róar mig eftir eirðarleysi í sól og birtu sumarsins. Þegar ég var krakki fannst mér oft erfitt á sumrin að vera innandyra og lesa þegar veðrið var bjart og fallegt úti. Þess vegna þótti mér alltaf rigningin svo góð, því þá var ég löglega afsökuð að vera bókanörd inni að lesa. Þegar svo veðrið fer að versna á haustin færist yfir mig meiri innri ró. Myrkrið finnst mér líka notalegt. Það hefur þessi sömu róandi áhrif og vont veður, heldur svolítið utan um mann. Svo hef ég líka alltaf haft þörf fyrir að snúa neikvæðu yfir í eitthvað jákvætt. Ég reyni því að taka á móti haustinu með opnum örmum og einblíni á þá hluti sem eru þægilegir og jákvæðir í staðinn fyrir að festast í eftirsjá eftir sumrinu. Núna t.d. í þessari niðursveiflu þurfum við sérstaklega á því að halda að sjá tækifærin og nýjar leiðir upp úr henni. Oft leiða kreppur til góðs, en við sjáum það yfirleitt ekki fyrr en eftir á. Ég held til dæmis að hátt olíu- og bensínverð muni ýta á okkur að fara að nýta aðra orkugjafa fyrir bílana okkar. Við ættum að geta orðið fyrsta þjóðin sem einvörðungu notar metangas og rafmagn á bílana. Það væri ótrúlega flott!