Sigríður Ingibjörg Eyjólfsdóttir fæddist á Bjargi í Borgarfirði eystra hinn 30. júlí 1921. Hún lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 17. september síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Bakkagerðiskirkju 25. september.

Elsku mamma. Þú varst víðsýn kona og lést þig varða aðstæður þeirra sem minna mega sín, hvar í heiminum sem er. Þú kenndir mér að við eigum að hafa skoðanir og kemur við hvað gerist í veröldinni, að allir eiga sama rétt óháð litarhætti. Þú kenndir mér að meta bækur sem voru gull í þínum augum, natni þín við bækur var mikil. Þú bjóst í einu fámennasta þorpi landsins við frumstæðar aðstæður þess tíma, en fróðleiksfýsn þín kallaði á upplýsingar um hinn stóra heim.

Söngur þinn fyrir svefninn, þulurnar og ljóðin, dansinn eftir danslögunum í útvarpinu, allur fróðleikurinn um gamla tíð, hvílíkur hafsjór. Þú kenndir mér að þekkja blóm, tré og jurtir sem hér vaxa. Þú kenndir mér líka að bragða á þeim til að ná betri tengingu við náttúruna. Þetta er öldungis rétt. Þetta tileinkaði ég mér og hef reynt að miðla því. Þú hafðir yndi af að flakka um og njóta óspilltrar náttúru, að klöngrast um fjöll og firnindi og teyga í þig ferskleikann þótti þér ekki ónýtt og ég er fegin því að bröltið við Kárahnjúka fór fram hjá þér.

Ljóðin þín sem þú skildir eftir mættu vera fleiri, þú áttir svo auðvelt með að yrkja, en vegna hlédrægni þinnar var því ekki flíkað. Þú varst stolt kona mamma mín og barst höfuðið hátt. Veraldlegir hlutir skiptu þig litlu máli, utan bókanna. Ég er glöð með að börnin mín skyldu alast upp í nágrenni afa og ömmu, það gerir minningabókina þeirra auðugri.

Ég kveð þig mamma mín. Ég er glöð að þú ert laus frá því lífi sem ekki var orðið neitt líf, en ég á eftir að sakna þín mikið. Þú skilur eftir stóra bók minninga í huganum mínum, hana varðveiti ég eins og þú varðveittir bækurnar þínar. Bless. Þín

Ásta.

mbl.is/minningar