Gunnar og Halldór Gunnar Stefánsson útvarpsmaður taldi of langt gengið að segja Halldór Laxness hafa skrifað leiðinlega bók.
Gunnar og Halldór Gunnar Stefánsson útvarpsmaður taldi of langt gengið að segja Halldór Laxness hafa skrifað leiðinlega bók.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Greinarhöfundur er efins um viðhorf Gunnars Stefánssonar útvarpsmanns til þess uppátækis tveggja rithöfunda að tjá sig í skjóli nafnleyndar um tvö af höfuðskáldum Íslands, Halldór Laxness og Þórberg Þórðarson.

Greinarhöfundur er efins um viðhorf Gunnars Stefánssonar útvarpsmanns til þess uppátækis tveggja rithöfunda að tjá sig í skjóli nafnleyndar um tvö af höfuðskáldum Íslands, Halldór Laxness og Þórberg Þórðarson. Hann telur að rithöfundar þurfi einmitt að grípa til nýrra meðala til að ná til almennings, koma af stað hreyfingu en ekki kyrrstöðu, skoða söguna án þess að gera sér helgimyndir.

Eftir Hermann Stefánsson

hermannstefansson@yahoo.com

Einn af bröndurunum í brandararöð sem gengur undir nafninu fílabrandarar hljóðar svo:

– Hvað sagði Tarsan þegar hann sá fílana koma yfir hæðina?

– Hann sagði: Þarna koma fílarnir.

Auðvitað! Hvað átti Tarsan að segja annað en það sem blasir við? Spurning brandarans gabbar mann og gefur í skyn að Tarsan hafi sagt eitthvað óvenjulegt, síðan er snúið upp á þær væntingar, því Tarsan lýsir bara yfir hinu augljósa.

Mér hefur stundum orðið hugsað til þessa brandara þegar ég hef horft upp á fyrirsjáanlegan málflutning, svo sem gagnrýni á stjórnvöld sem gerir öllum einfaldlega kleift að yppta öxlum og segja: Þetta er sama þusið og venjulega. Þarna koma fílarnir. Ég hef grun um að þetta sé viðkvæðið við megninu af borgaralegu óhlýðninni og mótmælunum gegn áætlunum um virkjanir og gjarnan viðbrögðin við máli rithöfunda. Ég á við málflutning sem kemur heimsmyndinni ekki á hreyfingu heldur leitast við að njörva hana niður í einfalt andstæðukerfi hugsunarlausra sannfæringa.

Heimsmynd er ekki kyrrstætt fyrirbæri, samfélagið tekur kúvendingar og einstaklingurinn finnur sig í sífellt nýrri stöðu, í umhverfi sem er honum annarlegt og framandi. Manneskjan breytist kannski ekki en nýjar aðstæður renna upp í sífellu með tilheyrandi breytingum á sjálfsmynd, sjálfskennslarofi, glundroða, feiknum og stórmerkjum þar sem glittir í sjónarrönd eða dagsbrún sem engin leið er að vita hvað ber í skauti sér. Nítjánda öldin var gullöld dulnefna og önnur slík öld er runnin upp núna, ekki síst vegna bloggheimsins sem stóreykur umfang hins opinbera vettvangs og stóreykur ábyrgð þeirra sem skrifa: Lög ná illa yfir bloggheima og þeim er ekki ritstýrt. Rithöfundur – hvað er það við slíkar aðstæður? Hugtak sem tilheyrir fornminjum ellegar eilíf og ævarandi fígúra sem stendur frammi fyrir nýjum kringumstæðum þar sem þörf er á nýjum brögðum, nýjum tólum, nýjum viðhorfum og nýjum leikjum, grímum, felulitum? Hvernig geta rithöfundar nálgast mál úr óvæntum áttum og komið heimsmyndinni úr jafnvægi, svo fólk yppti ekki bara öxlum og segi: Þarna koma fílarnir?

Lítil könnun Þrastar Helgasonar á leiðinlegustu klassísku bókmenntaverkunum hefur valdið svolitlum úlfaþyt. Slíkar kannanir hafa ekki gildi nema sem samkvæmisleikir og það eru ekki niðurstöðurnar sem uslanum valda heldur eitthvað annað, nafnleysi tveggja þátttakenda fer svo fyrir brjóstið á Gunnari Stefánssyni að hann kýs að rita um það greinarstúf sem birtist í síðustu Lesbók . „Af huglausum rithöfundum og „leiðinlegri klassík““ nefnist pistillinn. Svo illa samræmist það hugmyndunum sem Gunnar gerir sér um rithöfunda að einhverjir þeirra tjái sig nafnlaust að hann segist myndu forðast að lesa bækur þessara tveggja ef hann kynni á þeim deili, segir þá huglausa og klykkir út með: „Andans menn sem gerðu sig bera að slíku eiga ekki skilið sæmdarheitið rithöfundur.“ Ég veit minnst um það hverjir þessir rithöfundar eru sem þannig fara með sæmdarheiti sitt, annar með því að þykja lítt til Bréfs til Láru eftir Þórberg Þórðarson koma og tjá þá skoðun sína nokkuð ítarlega, hinn með því að vaxa Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness í augum og segja verkið of stóran skammt af snilld. Það er að vissu leyti rétt hjá Gunnari að nafnleysi er með sínum hætti óþægilegt og hreinlegra hefði verið af ritstjóra að hafa annaðhvort alla álitsgjafana nafnlausa eða engan. Og vissulega má gagnrýna þann glannaskap sem í greininni kemur fram úr ýmsum áttum, afskrifa sumt sem gaspur og draga annað í efa – en samt er ég efins um viðhorf Gunnars Stefánssonar.

Annar rithöfundanna lét hafa eftir sér eitthvað á þessa leið með mynd sem birtist af báðum í síðustu Lesbók : „Það hafa ekki allir rithöfundar hugrekki til að koma fram í skjóli nafnleyndar.“ Þetta er eins og talað úr mínu hjarta! Mér er nefnilega nær að halda að alltof fáir rithöfundar nýti sér upplausn forms og höfundargildis, gilda, auðkenna og sjálfskennsla til að bregða á leik og athuga hvað kemur út úr því, gera höfund og verk að tilraunastofu, leita nýrra sanninda. Reyna að tjá sig með öðrum hætti en þeim sem hægt er að afgreiða með: Þarna koma fílarnir. Nær að halda að margir þeirra séu of ferkantaðir til að skilja einu sinni hvað slíkt á að fyrirstilla. Gunnar lítur á rithöfunda eins og kallinn á kassanum, einhvern sem fólk veit hvar það hefur, hann kemur að morgni og þrumar sinn boðskap og endurtekur hann svo næsta dag. Það eru ekki hugmyndirnar sem settar eru fram í greininni atarna heldur nafnleysið sem fer í taugarnar á Gunnari. Að vera rithöfundur felst samkvæmt kokkabókum Gunnars í því að „kannast við hugmyndir sínar, lífsskoðanir og álit á mikilvægum hlutum og ganga fram fyrir þjóð sína með greinargerð fyrir öllu þessu“.

Að mínu mati er þetta ekki lýsing á rithöfundi heldur einhvers konar eimpípu, kannski óvenju sjálfbirgingslegum álitsgjafa, ef til vill stjórnmálamanni eða presti, í það minnsta einstaklingi sem er nokkurs konar fasti, manni sem hugsar ekki og hefur aldrei tvær öndverðar skoðanir samtímis heldur blæs upp úr sér fastmótuðum lífsskoðunum eins og túba sem hefur verið tengd við heyblásara og gefur frá sér sama tóninn út í eitt, öllum til leiðinda og ama sem ekki hafa ánægju af slíkum umhverfishljóðum. Það er eins og Gunnar hafi aldrei lesið stakt orð eftir höfunda sem sett hafa höfundarnafn sitt á flot, svo sem Mark Twain, Lewis Carroll, Byron lávarð eða Hermann Másson, ekkert lesið sem Jóhannes úr Kötlum birti sem Anonymous, Halldór Laxness undir nafninu Snær Svinni, Steinar Sigurjónsson sem Bugði Beygluson, Fernando Pessoa undir sínum ótal dulnefnum og Þórbergur Þórðarson sem Styr Stofuglamm. Og smyglaði ekki Jón Espólín sjálfum sér inn í flokk bókmennta, Íslendingasagna, sem alls ekki voru innan hans seilingar með verki sem var helber fölsun? Í augum franska fræðimannsins og rithöfundarins Maurice Blanchot hefjast bókmenntirnar á því andartaki sem bókmenntir verða að spurningu. Ekki aðeins hefur Gunnar ekki áttað sig á þversögnum rithöfundarins sem með einhverjum hætti leysir sjálfan sig látlaust upp, deyr inn í verk sín, hverfur og birtist á ný sem einhver annar, heldur er eins og hann hafi aldrei komið á spjallrás eða blogg og séð hve almenningur gerir mikið af því að skrifa nafnlaust og ekki veitt því athygli að gúllinn af rituðu máli á íslensku er nafnlaus, lunginn af fréttum, allar auglýsingar og flestar athugasemdir við blogg. Textar, sem er það sem rithöfundar fást við, eru algengastir ómerktir. Og staðreyndin er sú að almenningur veldur nafnleysinu mjög illa. Flestir sem tjá sig undir dulnefnum láta nafnleysið alveg fara með sig og þylja upp svívirðingar um lifandi manneskjur, dylgja, bulla, ryðja út úr sér fúkyrðum og gífuryrðum og vitleysu og hóta jafnvel morðum eins og það sé brandari. Án ábyrgðarmanns. Það hendir að satt orð hrekkur upp úr fólki – en viðkvæðið er alltaf það sama, nafnlaus skrif gilda ekki, og þar með er lunginn af rituðu máli á íslensku dæmdur úr leik og stundum að ósekju. Er það ekki einhver helsta áskorun okkar tíma að valda nafnleysi sem verður sífellt algengara? – Og varðar þessi áskorun ekki lýðræði í landinu og alla umræðu og umræðuhefð og alla raunverulega leit? Þetta er upplausn, stundum minnir netið á einhvers konar geðveiki, og vel mætti halda því fram að þeir höfundar sem ekki takast á við þessa geðveiki samtíma síns séu huglausir.

Ég held að þessi nafnlausi höfundur hafi rétt fyrir sér um Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness og fari með nokkuð nauðsynleg helgispjöll (þótt fimbulfamb hins höfundarins um Þórberg Þórðarson sé fjarri öllu lagi). Sjálfstætt fólk er of stór skammtur af snilld til að hægt sé að halda áfram á þeirri braut. Halldór Laxness er lokaður höfundur í þeim skilningi sem Roland Barthes lagði í það hugtak. Það er hægt að skrifa ævisögur og fræðirit um Laxness, jafnvel vinna með höfundinn sem goðsögn, en enginn rithöfundur hefur tekið upp þráðinn þar sem Laxness skildi við hann. Lokaðir rithöfundar eru ekki lakari en hinir opnu, bara öðruvísi; að mínu mati er Thomas Mann einnig lokaður höfundur, sömuleiðis José Saramago, Camilo José Cela... en opnir eru höfundar á borð við Jorge Luis Borges, Málfríði Einarsdóttur, Knut Hamsun, Benedikt Gröndal... Harla fáir rithöfundar, ef einhverjir, hafa spunnið þráð Þórbergs Þórðarsonar áfram og enginn þráð Halldórs Laxness. Það kemur ósköp lítið á óvart að höfundar líti ekki á verk þeirra sem orkugjafa.

En það var víst ekki það heldur órithöfundarlegt háttalag sem hneykslaði. Og ég held að rithöfundar þurfi einmitt að grípa til nýrra meðala til að ná til almennings, koma af stað hreyfingu en ekki kyrrstöðu, skoða söguna án þess að gera sér helgimyndir, leyfa sér að reyna að koma hlutunum í uppnám, leyfa sér að vera fjörugir, skemmtilegir, glannalegir, koma úr nýrri átt í stað þess að koma enn eina ferðina bröltandi yfir hæðina svo að fólk segir: Þarna koma fílarnir. Að gefnu tilefni vek ég athygli á að skáldsaga mín, Algleymi , kemur út á allra næstu dögum. Halldór Laxness kemur fyrir í henni í mýflugumynd og hverfur þaðan jafnharðan aftur en engir fílar koma þrammandi yfir hæðina, ef svo er mun ég leita það uppi í próförk og bæta við sólgleraugum eins og í öðrum fílabrandara:

– Hvað sagði Tarsan þegar fílarnir komu yfir hæðina með sólgleraugu?

– Ekkert, hann þekkti þá ekki með sólgleraugun.

Höfundur er rithöfundur.