Ríkislögreglustjóri Mikill vandi steðjar að efnahagsbrotadeildinni.
Ríkislögreglustjóri Mikill vandi steðjar að efnahagsbrotadeildinni. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is Ég er að reyna að halda þessari deild saman,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra [RLS].

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

Ég er að reyna að halda þessari deild saman,“ segir Helgi Magnús Gunnarsson, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra [RLS]. Starfsmenn efnahagsbrotadeildarinnar voru nítján þegar Helgi tók við embættinu. Fluttar voru tvær stöður yfir til greiningardeildarinnar, einn fór í önnur verkefni, einum lögfræðingi deildarinnar verður sagt upp frá og með áramótum og staða Helga verður lögð niður á sama tíma, þegar ný lög um meðferð sakamála taka gildi.

Mjög líklega munu einhverjir lögfræðingar færast yfir til embættis héraðssaksóknara, enn hefur ekki verið ákveðið með hvaða hætti það verður.

Undirmönnuð deild

„Þetta er bara áhuga- og virðingarleysi fyrir málaflokknum,“ segir Helgi. Hann segir að deildin hafi sætt gagnrýni fyrir tafir á málum, það sé ekki skrýtið þegar hún er jafn undirmönnuð og raun ber vitni. Helgi segir að starfsmannavelta sé deildinni einnig óþægur ljár í þúfu en helmingur starfsmanna er með ár eða minna í starfsreynslu í efnahagsbrotum.

„[Efnahagsbrotadeild] kemur engum málum óbrjáluðum frá sér nema einföldustu skattsvikamálum,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður, í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í vikunni. Nefndi hann Baugsmálið og málverkafölsunarmálið sem dæmi um lítinn árangur. Er þetta aðeins eitt nýlegt dæmi um þá gagnrýni sem deildin hefur sætt. „Ég held að þessi fullyrðing Sigurðar sé sett fram í hálfkæringi,“ segir Helgi. „Hann nefnir tvö mál sem dæmi um lélegan árangur. Deildin hefur á þeim tíu árum sem hún hefur starfað farið með um eða yfir 300 mál, fæst þeirra eru bundin við einföld vanskil vörsluskatta,“ segir Helgi.

Undanfarin ár hefur rík áhersla verið lögð á að byggja upp og bæta þekkingu hjá deildinni.

Með nýjum lögum um meðferð sakamála var ekki gerð breyting á lögreglulögum. Efnahagsbrotadeild mun því áfram annast rannsókn efnahagsbrota, en með þessum breytingum er í reynd verið að skipta deildinni upp í tvennt.

Efnahagsbrotadeildin hefur til skoðunar mjög flókin álitaefni, t.d mál tengd tilteknum athöfnum stjórnenda og stjórnarmanna í hlutafélögum, eins og í Baugsmálinu. Heimfærsla slíkra brota til refsiákvæða í lögum krefst því mikillar þekkingar viðkomandi rannsakenda. Sumir hafa áhyggjur yfir aðskilnaði rannsóknar og saksóknar efnahagsbrota með hinum nýju lögum. Heimfærsla refsiverðs verknaðar til ákvæða laga er nátengd rannsókn á viðkomandi brotum. Skipulagið í Noregi, Svíþjóð og Danmörku er þannig að rannsókn þessara mála er undir stjórn saksóknara efnahagsbrota, undir einu þaki.

Mikilvægt að tryggja nálægð

Sigurður Tómas Magnússon, fyrrverandi héraðsdómari og settur saksóknari í Baugsmálinu, vinnur að því m.a. að útfæra innan ramma nýrra laga hvernig saksókn efnahagsbrota hjá héraðssaksóknara verður hagað. Sigurður sagði í samtali við Morgunblaðið að verið væri að athuga hvort hægt yrði að hafa rannsókn og saksókn í sama húsnæði, m.a til þess að tryggja fyrrnefnda nálægð.

35 voru ákærðir

Saksóknari efnahagsbrota ákærði 35 einstaklinga á árinu 2007 í samtals 21 máli. Flest voru málin (20) vegna skattalagabrota, fjórir voru ákærðir fyrir umboðssvik, einn fyrir skilasvik og 10 vegna brota á höfundarlögum.

Í árslok 2007 voru tíu mál fyrir dómi, sakfelling hafði fengist í tíu málum og einu máli var lokið með svokallaðri viðurlagaákvörðun, að því er fram kemur í ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2007. Mörg þeirra mála sem tekin voru til rannsóknar kröfðust fleiri en eins rannsakanda.

Hver starfsmaður hjá efnahagsbrotadeild var að meðaltali með tvöfalt fleiri viðfangsefni á hverjum tíma en starfsmenn hjá sambærilegum deildum í Noregi og Svíþjóð, samkvæmt ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2005. Þá voru starfsmenn efnahagsbrotadeildar 18 talsins, og þeim fækkar verulega með breytingunum.