Jón Hallur „Sjálfur hef ég ekkert á móti skoðunum en mér finnst ég ekki hafa upp á neinn sannleika að bjóða sem aðrir ættu að taka mið af.“
Jón Hallur „Sjálfur hef ég ekkert á móti skoðunum en mér finnst ég ekki hafa upp á neinn sannleika að bjóða sem aðrir ættu að taka mið af.“ — Morgunblaðið/Kristinn
Jón Hallur Stefánsson rithöfundur vakti athygli fyrir fyrstu glæpasögu sína, Krosstré . Nú sendir hann frá sér sögu um brennuvarg sem gengur laus á Seyðisfirði.

Jón Hallur Stefánsson rithöfundur vakti athygli fyrir fyrstu glæpasögu sína, Krosstré . Nú sendir hann frá sér sögu um brennuvarg sem gengur laus á Seyðisfirði. Hér segir hann frá því hvernig hann gerðist glæpasagnahöfundur, hvernig hann skrifar sögurnar, hvað honum finnst um glæpasögur, hvers vegna hann er vondur við persónur sínar og hvers vegna hann býður ekki upp á sannleika í verkum sínum.

Eftir Þröst Helgason

throstur@mbl.is

ÞÞegar ég renni upp að JL-húsinu stendur rauður stigabíll fyrir framan með stigann reistan upp að húsinu. Það fyrsta sem mér dettur í hug er hvort kviknað sé í. En þetta er ekki bíll frá slökkviliðinu. Það er bara verið að mála eða gera við þakrennur.

Ég er á leið í ReykjavíkurAkademíuna á efstu hæð JL-hússins að tala við Jón Hall Stefánsson um nýja skáldsögu sem hann sendir frá sér á næstu vikum. Bókin heitir Vargurinn og er glæpasaga um brennuvarg sem gengur laus á Seyðisfirði.

Þetta er annar krimminn sem Jón Hallur skrifar, sá fyrri hét Krosstré og vakti talsverða athygli þegar hann kom út árið 2005. Sú bók fjallaði um ástir, kynlíf og svik. Hún hefur verið þýdd á þýsku, norsku, dönsku, hollensku og frönsku. Nýja bókin mun koma út á þýsku í lok árs en þýski útgefandinn gerði samning við Jón Hall um útgáfu Vargsins um leið og hann keypti réttinn á Krosstré fyrir þremur árum. Útgefandinn mun ekki verða svikinn, inn í sögu brennuvargsins fléttast einnig framhjáhald og ófullnægðar ástir, svik og prettir. Og líkt og í fyrri bókinni leggur Jón Hallur áherslu á sálfræðilega spennu sem vex jafnt og þétt.

Krónprinsinn fæðist

Jón Hallur er þekktur útvarpsmaður, tónlistarmaður, skáld og þýðandi. Hann segist ekki beinlínis hafa stefnt að því að gerast glæpasagnahöfundur þegar ég spyr hann hvers vegna hann hafi valið það form.

„Hermann Stefánsson bróðir minn og Jón Karl Helgason vinur minn báðu mig að lesa yfir smásögu sem þeir ætluðu að senda inn í samkeppni Hins íslenska glæpafélags og Grandrokks árið 2004. Það voru góð verðlaun í boði svo ég sagðist í gamni ætla að taka þátt í henni sjálfur. Hermann sagði mér endilega að gera það. Ég átti í fórum mínum nokkrar hugmyndir sem voru svolítið glæpasögulegar og upp úr einni þeirra skrifaði ég sögu, sem heitir Enginn engill. Hún vann keppnina.

Ég átti að vera að klára þýðingu fyrir útgefanda minn, Snæbjörn Arngrímsson hjá Bjarti, þegar ég tók til við að skrifa smásöguna. Þegar ég bað hann um smáfrest til verksins sagðist hann einmitt vera að leita sér að krimmahöfundi. Mér leist svona sæmilega á það. Eftir að hafa lesið smásöguna sendi hann mér sms þar sem hann spurði hvort ég ætlaði ekki að skrifa glæpasögu fyrir sig. Ég svaraði að ég gæti gert það ef hann gerði mér það kleift fjárhagslega. Skömmu síðar kom annað sms þar sem Snæbjörn sagði mér að kíkja á heimasíðu Bjarts. Þar var hann búinn að boða komu nýs ónefnds glæpasöguhöfundar sem myndi loksins veita Arnaldi Indriðasyni verðuga keppni.“

Var það kannski strax þá sem þér var gefinn titillinn „krónprins íslensku glæpasögunnar“?

„Nei, ég held það hafi ekki gerst fyrr en danski krónprinsinn fæddist.“

Jón Hallur segir að hann hafi orðið að setjast niður við að skrifa glæpasögu úr því sem komið var.

„Og mér þótti það bara mjög skemmtilegt. Ég ætlaði að hespa hana af þetta sumar og fór einmitt til Seyðisfjarðar að skrifa, en síðan kom hún ekki út fyrr en ári síðar. En þegar ég lagði upp í þessa ferð var ég alls ekki viss um að geta klárað skáldsögu. Og það var bara séns sem Snæbjörn tók. Ég hafði tvisvar reynt að skrifa skáldsögu en hreinlega aldrei haft tíma til þess að klára.“

Ég er svolítið forvitinn um vinnubrögðin á bak við ritun glæpasögu. Hvernig nálgast þú slíkt verkefni? Fer til dæmis mikill tími í að plotta söguna áður en þú sest niður við eiginleg skrif?

„Þetta er örugglega mjög mismunandi eftir höfundum og ég veit ekki hvort það er munur á glæpasögum og öðrum sögum hvað þetta varðar. Auðvitað fer talsverð orka í að láta glæpasögu ganga upp, sagan verður að halda þræði allt til enda sem sumar skáldsögur þurfa ekki endilega að gera. En ég spinn mikið. Ég hef einhvern ákveðinn endapunkt í huga en hann er samt meira tilfinning en niðurnegld stærð.

Ég ætlaði reyndar að vera skipulagðari við ritun Vargsins . Byrjaði á að teikna upp grind að sögunni. En það voru mistök. Hlutir sem ég ímyndaði mér að kæmu vel út enduðu í ruslakörfunni. Líklega henti ég miklu meiri texta við ritun Vargsins en Krosstrés .

Mér fannst það líka drepa gleðina við skrifin að vera of negldur við þessa grind og varð feginn þegar ég fleygði henni. Það er miklu meira spennandi að vita ekki um hvað næsti kafli á að vera og hafa pláss til að láta persónurnar koma sér á óvart. Með því að taka áhættuna og treysta einhverju innsæi getur maður svo komist á það stig að finnast maður ekki geta gert nein mistök. Það er ansi góð tilfinning.“

Síðan gerðist eitthvað

Viðhorf til glæpasagna hefur gjörbreyst hér á landi síðustu tíu ár. Það þótti einhverra hluta vegna hallærislegt að skrifa krimma og sennilega fannst lesendum glæpasögur sem gerðust á Íslandi ekki trúverðugar. Hvaða augum lítur Jón Hallur þessa bókmenntagrein?

„Mér þykir gott að krimminn sé orðinn gjaldgengur í íslenskum bókmenntaheimi. Lengi voru slík skrif talin ansi vonlaus. Sjálfur var ég efins um að glæpasögur pössuðu við íslenskan veruleika. En síðan gerðist eitthvað. Arnaldur Indriðason ruddi brautina, tókst að skrifa trúverðugan íslenskan krimma.“

Jón Hallur bendir á að Sjón hafi sett fram áhugaverða kenningu um að ákveðið morðmál sem upp kom hér á landi undir aldamót hafi breytt viðtökum íslenskra glæpasagna. Þar myrti ungur maður félaga sinn, faldi líkið og tók svo þátt í leit að því. Jón Hallur segir að málið hafi að stórum hluta farið fram í fjölmiðlum. Þegar það var upplýst og í ljós kom að morðinginn var venjulegur lögfræðingur úti í bæ hafi þjóðinni brugðið, glæpaheimurinn hafi verið færður nær almenningi en oftast áður.

„Um haustið kom svo Mýrin eftir Arnald út en hún var fyrsta glæpasagan sem sló verulega í gegn,“ segir Jón Hallur. „Upp úr því fóru lesendur að kalla eftir íslenskum krimmum. Svo virtist sem íslenskt samfélag væri orðið nægilega stórt, nægilega „þroskað“ fyrir glæpasögur.“

Jón Hallur segir að allar götur síðan hafi þessi bókmenntategund verið á uppleið hjá lesendum. Sennilega hafi krimminn fengið meiri athygli en hann á skilið.

„Og það er ákveðinn urgur í sumum höfundum fagurbókmennta. Þeir finna að krimmarnir taka mikið pláss á markaðnum og í fjölmiðlunum. Einhverjir glæpasagnahöfundar hafa svo brugðist við með svipuðum hætti og popptónlistarmenn hafa stundum gert gagnvart klassíkinni, þeim finnst nánast eins og fagurbókmenntir séu tímasóun, krimmarnir séu það sem skipti máli.

Það hefur því verið sviptingasamt í bókmenntaheiminum, virðingarstaða ólíkra bókmenntategunda er ekki alveg jafn niðurnjörvuð og hún var, afstaða manna ekki alveg jafn fyrirsjáanleg.“

Vondur við persónur mínar

Hefurðu alltaf lesið glæpasögur?

„Já, alltaf. Og raunar voru skáldsögurnar tvær, sem ég hafði byrjað að skrifa en aldrei náð að klára, svolítið reyfarakenndar. Ég skrifaði mikið af ljóðum á sama tíma en sögurnar voru af allt öðru tagi.“

Ertu kannski meira gefinn fyrir skáldsögur með plotti en ljóðrænan prósa?

„Ég verð stundum spældur ef ég er svikinn um söguna sem mér hefur verið lofað í bókinni. En saga þarf ekki endilega að vera með æsilegri atburðarás. Ég er til dæmis ekki svikinn um söguna í Sandárbókinni eftir Gyrði Elíasson. En þegar bækur leysast upp í orðafyllerí finnst mér ég hafa verið svikinn.“

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir meðal glæpasagnahöfunda?

„Ekki beinlínis, en þegar ég skrifaði Krosstré hafði ég að einhverju leyti hliðsjón af breskum glæpaþáttum í sjónvarpi þar sem maður er leiddur hægt og rólega inn á sögusviðið. Áhorfandinn veit í raun ekkert hvað er að gerast fyrr en eftir tíu mínútur. Þegar ég hafði skrifað fimmtíu síður í Krosstré og enn ekki gefið lesandanum miklar vísbendingar um það hvað glæpurinn snerist um þá var mér bent á að hjálpa lesandanum aðeins. Fimmtíu síður eru aðeins lengur að líða en tíu mínútur í sjónvarpi.“

Jón Hallur segist líka hafa lært talsvert af því að vinna í leikhúsi þar sem hann hefur gert hljóðmyndir. Hann er sérstaklega hrifinn af því hvernig Stefán Jónsson leikstjóri mótar persónur sínar.

„Í þessum tveimur sýningum sem ég vann með honum keyrði hann persónurnar yfir strikið af mikilli grimmd, málaði þær dökkum litum, en á lokasprettinum í æfingaferlinu dró hann aðeins úr, gerði þær mannlegar. Ég held ég hljóti að hafa orðið fyrir áhrifum af þessari aðferð því ég geng nærri persónum mínum, er vondur við þær á meðan ég skrifa.“

Hef ekkert á móti skoðunum

Glæpasögum er stundum skipt í samfélagslegar og sálfræðilegar sögur. Sögur Jóns Halls tilheyra sennilega fremur síðarnefnda flokknum. Hann segist enda ekki hafa neina þörf fyrir að koma samfélagslegum boðskap á framfæri í skrifum sínum.

„Mér finnst ég hafa svo lítið vit á samfélagsmálum og ekki geta uppfrætt þjóðina um þá hluti. Mér finnst ágætt að aðrir geri það. Sögurnar eru þannig ekki raunsæislegar í þeim skilningi að þær fjalli um veruleikann og vandamál hans. Vargurinn gerist til dæmis á Seyðisfirði en hún fjallar ekki um Seyðisfjörð. Ég bý til mitt eigið samfélag og nota Seyðisfjörð raunveruleikans bara sem myndræna umgjörð.

Ég bý auðvitað í samfélagi og það hlýtur að síast inn í textann minn, en það er ekki tilgangurinn með skrifunum. Ég hef til dæmis ekki mikinn áhuga á að greina glæpaheiminn sem slíkan. Ég hef meiri áhuga á venjulegu fólki sem leiðist út í einhverja ógæfu.“

Hvers vegna valdirðu Seyðisfjörð?

„Ég dvaldi þar við ritun Krosstrés sem gerist í Reykjavík. Þegar ég ákvað að skrifa um brennuvarg fannst mér sú saga eiga heima í litlu samfélagi. Lítið samfélag upplifir slíkan glæp með mjög sterkum hætti.“

Er gerð meiri krafa til glæpasagnahöfunda um að hafa skoðun á samfélagsmálum?

„Ég hef orðið var við það já. Á upplestrum hef ég verið spurður út í það hvert væri mitt framlag til samfélagsumræðunnar. En þær stöðvar heilans eru bara ekki virkar þegar ég skrifa. Sjálfur hef ég ekkert á móti skoðunum en mér finnst ég ekki hafa upp á neinn sannleika að bjóða sem aðrir ættu að taka mið af. Ég hef reyndar á meðvitaðan hátt forðast að demonísera ákveðna þjóðfélagshópa, það má kannski segja að það sé viss samfélagslegur boðskapur í því. Svarthvít heimsmynd höfðar ekki til mín.“

S&S

Ertu stigamaður?

Já, mér finnst alltaf jafn gaman að hlaupa upp stiga. Alveg satt.

Hver finnst þér áhugaverðasti glæpamaður sögunnar?

Tja, upp í hugann kemur íslenskur smáglæpamaður og reyndar starfsbróðir minn, Vernharður Eggertsson. Afbrot hans voru smá og fá en hann afrekaði það að verða fyrstur manna til að skipuleggja flótta úr íslensku fangelsi. Um flóttann frá Litla-Hrauni, aðdraganda hans og eftirmál skrifaði hann bráðskemmtilega bók, Því dæmist rétt vera. Seinna gaf hann svo út reyfara undir dulnefninu Dagur Austan.

Fylgistu sérstaklega með fréttaflutningi af glæpum?

Ekkert meira en hver annar. Samt finn ég örla á faglegum áhuga á því efni síðan ég gerðist krimmahöfundur.

Telurðu að skipulögð glæpastarfsemi þrífist í stórum stíl á Íslandi?

Hún er auðvitað til staðar, spurningin er bara um þennan stóra stíl. Ef ég væri glæpamógúll mundi ég ekki líta á Ísland sem vænlegan stað til að færa út kvíarnar.

Hver er mesti glæpurinn?

Hver sá glæpur sem kemur niður á barni.

Hver er besta glæpasaga sem þú hefur lesið?

Ég held það liggi í eðli glæpasögunnar að það sé engin ein saga á toppnum, þetta eru jú upp til hópa seríur og jafnvel besta bók einhvers höfundar – ef maður skyldi nú geta valið hana – er hluti af stærri heild. En ef ég þyrfti að velja mundi það líklega verða ein af bókum Raymonds Chandlers, The Big Sleep, kannski. Bara af því að ég kynntist þeim á móttækilegum aldri.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Auðvitað marga en nafn Julios Cortázars frá Argentínu kallar alltaf fram gamlan lestrarsæluhroll. Ég þýddi einu sinni safn af smásögum eftir hann.

Hvenær skrifarðu og hvar?

Frá svona hálftíu til kortér yfir fjögur í ReykjavíkurAkademíunni þar sem ég hef vinnuaðstöðu.

Semurðu á tölvu?

Já, nema söngtexta og ljóð, þegar svo ber undir.

Hvað gerir svo maður eins og þú á laugardagskvöldum?

Drekk tvo, þrjá bjóra og eyði tímanum í einhverja indæla vitleysu.

Fortíðin eltir mann uppi

Löggurnar mega ekki vera of pottþéttar

„Gjörðir manns og ákvarðanir hafa áhrif á annað fólk,“ segir Jón Hallur þegar ég spyr hann út í umfjöllunarefni Vargsins. „Fortíðin eltir mann uppi, rangar ákvarðanir geta haft keðjuverkandi áhrif á aðra, oft þá sem síst skyldi.“

Í Varginum gengur brennuvargur laus en sagan fjallar ekki síður um samskiptin á milli persónanna sem tengjast glæpnum og rannsókn hans. Snert er á viðkvæmum efnum eins og sjálfsvígum og framhjáhaldi.

Lögreglumaðurinn Valdimar Eggertsson, sem lesendur kynntust í Krosstré, rannsakar málið. Jón Hallur segist upphaflega hafa ætlað að skrifa Krosstré án slíkrar persónu en fljótlega komist að því hvað hún gerði mikið gagn í frásögninni. „Hann á sjálfur í vandræðum með ástamál sín. Hann þarf líka að glíma við ákveðna hluti úr fortíð sinni og fjölskylduvandamál. Löggurnar verða að vera breyskar. Þær mega að minnsta kosti ekki vera of pottþéttar. Þá hættir fólk að trúa á þær, samsama sig við þær.“