Bergur um skáldið „Hann sýndi í raun hversu mikilvæg listin er í vitund fólks og þjóðar,“ segir Bergur sem fjallar um Heimsljós á Gljúfrasteini á morgun, sunnudag, klukkan 16.
Bergur um skáldið „Hann sýndi í raun hversu mikilvæg listin er í vitund fólks og þjóðar,“ segir Bergur sem fjallar um Heimsljós á Gljúfrasteini á morgun, sunnudag, klukkan 16. — Morgunblaðið/Valdís Thor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is „AUÐVITAÐ verður þetta ekki fyrirlestur fræðilegs eðlis, enda eru margir hæfari en ég til að fara í bókmenntafræðilegar kenningar og pælingar um verk Halldórs.

Eftir Ásgeir Ingvarsson

asgeiri@mbl.is

„AUÐVITAÐ verður þetta ekki fyrirlestur fræðilegs eðlis, enda eru margir hæfari en ég til að fara í bókmenntafræðilegar kenningar og pælingar um verk Halldórs. Ég tala meira út frá sjálfum mér: persónulegri upplifun af verki sem er í persónulegu uppáhaldi,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson sem er einn meðlima hljómsveitarinnar Sprengjuhallarinnar.

Bergur er fyrstur þriggja ungra listamanna sem halda „stofuspjall“ á Gljúfrasteini um tengsl þeirra við og skoðanir á nóbelsskáldinu en seinna í haust munu þau Erpur Eyvindarson rappari og Ingunn Snædal ljóðskáld spjalla í stofunni.

Las Laxness tilneyddur

En af hverju valdi Bergur Ebbi að fjalla um Heimsljós ? „Ég fór ekki að lesa verk Halldórs Laxness fyrr en ég var skikkaður til að gera það í menntaskóla,“ játar hann. „En í kjölfarið fór ég að lesa meira af verkum Halldórs. Maður var mjög móttækilegur á þessum tíma og sennilega hafa skrif Halldórs Laxness haft mikið að gera bæði með hvernig ég upplifi mig sem Íslending og upplifi þjóðina.“

Bergur segir Heimsljós hafa verkað sterkt á sig þegar hann las bókina fyrst sem unglingur og fann mikla samsvörun í Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi: „Söguhetjan er að uppgötva ýmislegt um sjálfan sig og aðra. Hann er utan við hópinn; stendur einhvern veginn utan við samfélagið og getur þess vegna horft á það úr fjarlægð og skilið hvernig það gengur fyrir sig,“ segir hann.

Fyrirmynd sem listamaður

Blaðamaður innir konunginn í Sprengjuhöllinni eftir því hvort Heimsljós eða önnur verk Halldórs Laxness hafi mótað hann sem listamann: „Áreiðanlega,“ svarar Bergur Ebbi. „Þó held ég að mest áhrif hafi Halldór Laxness haft sem persóna: hvað hann var ótrúlega metnaðarfullur sem rithöfundur og sem listamaður. Hann sýndi í raun hversu mikilvæg listin er í vitund fólks og þjóðar. Hann sýndi hvernig listamenn geta haft miklu meiri áhrif en nokkur pólitíkus eða auðmaður. Og það er þetta sem gefur ungu og skapandi fólki í dag innblástur og vilja til að leggja listir fyrir sig.“

Saga unglings og samfélags

Halldór Laxness lét Heimsljós frá sér í fjórum hlutum á árunum 1937-1940, á eftir Sjálfstæðu fólki en undan Íslandsklukkunni .

Heimsljós segir þroskasögu Ólafs Kárasonar sem kallar sig Ljósvíking en í gegnum ævi hans og upplifanir skoðar Halldór Laxness stöðu skáldsins í þjóðfélaginu og hugarheim hans, stéttaátök og kjör alþýðunnar.

Illa er farið með Ólaf á bænum Fæti undir Fótarfæti og er raunar allt og allir á móti Ólafi frá fyrsta degi en Halldór leggur honum í munn margar ljóðaperlur sem í dag þykja með mestu bókmenntagersemum þjóðarinnar.