Rænt Skipið BBC Trinidad í Muscat í Oman fyrir skömmu, eitt af mörgum sem sjóræningjar hafa hertekið.
Rænt Skipið BBC Trinidad í Muscat í Oman fyrir skömmu, eitt af mörgum sem sjóræningjar hafa hertekið. — Reuters
SJÓRÆNINGJAR hafa á sínu valdi flutningaskip, Faina, við strönd Sómalíu en skipið var á leið til Kenía með vopnafarm, þ. á m. 33 stóra skriðdreka af gerðinni T-72 en þeir eru smíðaðir í Rússlandi.

SJÓRÆNINGJAR hafa á sínu valdi flutningaskip, Faina, við strönd Sómalíu en skipið var á leið til Kenía með vopnafarm, þ. á m. 33 stóra skriðdreka af gerðinni T-72 en þeir eru smíðaðir í Rússlandi. Skipið er í eigu Úkraínumanna en skráð í Belize og er 21 maður í áhöfninni, að sögn fréttavefjar BBC . Talið er að sómalskir sjóræningjar hafi nú á valdi sínu meira en tug skipa í höfninni Eyl í héraði er nefnist Puntland og er hálf-sjálfstætt.

Sagt er að þrír bátar með vopnaða menn innanborðs hafi skyndilega umkringt skipið um 200 mílur frá ströndinni á fimmtudag og hertekið það. Varnarmálaráðherra Úkraínu, Júrí Jekanúrov, staðfesti að auk skriðdrekanna hefði verið „umtalsvert magn af skotfærum“ um borð.

Vestræn herskip hafa öðru hverju efnt til aðgerða gegn sjóræningjum á svæðinu en ekki hefur verið raunveruleg ríkisstjórn við völd í Sómalíu í 17 ár. Er landið oft kallað dæmi um „hrunið ríki“ en þar geisa stöðugt átök milli fjölmargra vígahópa. Fjöldi fólks hefur að undanförnu flúið stærstu borg landsins, Mogadishu.

Bandarískt herskip er nú sagt vera á leið í áttina að Faina. Rússar sögðu í gær að eitt af herskipum þeirra hefði lagt af stað frá Eystrasalti í vikunni. Myndi það fá það hlutverk að vernda rússneska borgara og skip. kjon@mbl.is