[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@24stundir.is Undanfarin fjögur ár hefur Nirmala Thapa barist fyrir því að fá þrjú barna sinna heim frá Spáni þangað sem þau voru ættleidd ólöglega frá Nepal.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@24stundir.is

Undanfarin fjögur ár hefur Nirmala Thapa barist fyrir því að fá þrjú barna sinna heim frá Spáni þangað sem þau voru ættleidd ólöglega frá Nepal.

Fjárhagsástæður Nirmala Thapa, sem er sex barna móðir, voru bágbornar eftir að hún missti mann sinn og hún hafði ekki ráð á að senda þau öll í skóla. Forsvarsmenn stofnunar fyrir börn buðust til að skjóta skjólshúsi yfir þrjú yngstu börnin og mennta þau og var móðirin beðin um að undirrita skjöl vegna þess. Þar sem hún var ólæs vissi hún ekki að hún var að afsala sér forræði yfir börnunum.

Neitað um hjálp

Nokkrum mánuðum eftir að Nirmala Thapa undirritaði skjölin komst hún að því að börnin hennar höfðu verið send úr landi. Þegar hún krafðist þess að fá börnin sín aftur hótuðu forsvarsmenn stofnunarinnar henni málsókn. Staðaryfirvöld neituðu henni um hjálp og sögðu hana hafa afsalað sér réttinum yfir börnunum auk þess sem ættleiðingin hefði verið samþykkt af velferðarráðuneytinu, að því er greint er frá á fréttavefnum irinnews.org, fréttaveitu á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Nirmala Thapa er bara ein af gríðarlegum fjölda Asíubúa sem hafa verið vélaðir til þess að láta börn sín af hendi.

Barn fyrir 2,5 milljónir

Á Vesturlöndum fjölgar stöðugt fjölskyldum sem vilja ættleiða börn frá fátækum löndum, einkum í Asíu. Samtímis eykst spillingin meðal embættismanna og yfirmanna stofnana fyrir börn.

Ættleiðingar eru sums staðar orðnar að gríðarlega arðbærum viðskiptum vegna skorts á lögum um verndun barnanna, að því er segir í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í lok ágúst síðastliðins.

Baráttumenn fyrir réttindum barna segja að í Nepal séu ættleiðingarnar orðnar að margra milljóna dollara iðnaði. Þeir segja að þar sem viðskiptavinir í Evrópu og Bandaríkjunum séu fúsir til þess að greiða 25 þúsund dollara fyrir barn, eða tæpar 2,5 milljónir íslenskra króna, aukist sífellt hættan á því að börn séu numin á brott frá foreldrum sínum og seld.

Indversk börn eru numin frá foreldrum sínum á sama hátt og börn í Nepal.

Rannsókn í Ástralíu

Tímaritið Time hafði það eftir lögmanni á Indlandi fyrir nokkrum vikum að líklegt væri að 30 af þeim 400 indversku börnum sem ættleidd hefðu verið til Ástralíu á undanförnum 10 til 15 árum hefðu verið seld. Tímaritið greindi frá því að áströlsk fjölskylda hefði ættleitt níu ára stúlku sem var stolið þegar móðir hennar fór á markað. Yfirvöld í Ástralíu hafa boðað rannsókn á þessum málum.

Yfirvöld í Víetnam hafa boðað aðgerðir til að koma í veg fyrir sölu á börnum.

Embættismenn handteknir

Yfirmenn tveggja stofnana fyrir börn í Nam Dinh-héraðinu í Víetnam hafa verið handteknir ásamt tveimur embættismönnum fyrir að hafa tekið að minnsta kosti 300 börn undir fimm ára aldri frá fátækum foreldrum þeirra á undanförnum þremur árum.

Hinir handteknu eru jafnframt sakaðir um að hafa falsað persónuleg skilríki fyrir börnin og selt síðan börnin til ættleiðingar úr landi.

Samkvæmt skýrslu bandaríska sendiráðsins í Hanoi í Víetnam frá því í vor er fullyrt að forsvarsmenn sumra ættleiðingarskrifstofa gefi stofnununum þangað sem börnin eru sótt stórar fjárhæðir.

Í skýrslunni er jafnframt fullyrt að í mörgum tilfellum sé skráð að börnin hafi verið yfirgefin af foreldrum sínum.

Skipta fénu á milli sín

Sænska blaðið Dagens Nyheter vitnar í skýrsluna og skrifar að víðsvegar í Víetnam greini forsvarsmenn stofnananna frá því að yfirgefnum börnum hafi fjölgað gríðarlega frá árinu 2005. „Forsvarsmenn stofnana í sjö héruðum segja að fjöldinn hafi sautjánfaldast eða meira.

Forsvarsmenn heimila sem ekki eru í sambandi við ættleiðingarskrifstofur erlendis hafa hins vegar ekki tekið eftir auknum fjölda yfirgefinna barna,“ segir í skýrslunni samkvæmt frétt Dagens Nyheter.

Í tilvitnun í skýrsluna segir jafnframt að traustar upplýsingar séu fyrir hendi um að sumar ættleiðingarskrifstofur borgi 10 þúsund dollara fyrir hvert barn sem staðarmenn vísa á. Samkvæmt upplýsingum eins þeirra fá yfirmenn stofnananna talsverðan hluta fjárins.

Yfirmaður ættleiðingardeildar dómsmálaráðuneytisins í Víetnam, Vu Duc Long, vísaði á bug skýrslu bandaríska sendiráðsins. Starfsmenn sendiráðsins sögðu niðurstöðurnar sem birtar voru í skýrslunni árangur margra mánaða rannsókna á mörg hundruð tilfellum.

Umræða um galla og kosti

Í kjölfar birtingar skýrslunnar ákváðu yfirvöld í Víetnam að hætta að taka við umsóknum frá Bandaríkjunum um börn til ættleiðingar eftir 1. júlí síðastliðinn. Bandaríkin og Víetnam tóku á ný upp samvinnu um ættleiðingar árið 2006 en þá hafði það legið niðri í þrjú ár vegna upplýsinga Bandaríkjamanna um útbreidd viðskipti með ung börn í Víetnam.

Í fyrra voru yfir 800 börn send til bandarískra foreldra til ættleiðingar í gegnum rúmlega 40 ættleiðingarskrifstofur. Nú hefur öllum bandarískum ættleiðingarskrifstofum í Víetnam verið lokað.

Í kjölfar handtökunnar í Nam Dinh hefur farið af stað mikil umræða í fjölmiðlum í Víetnam um galla og kosti ættleiðinga. Sumir tala um mansal og halda því fram að best sé fyrir börn að alast upp í eigin menningarheimi. Aðrir telja að ættleiðingar séu góður kostur fyrir barnmargar, fátækar fjölskyldur á landsbyggðinni sem ekki geti komið öllum börnunum sínum í skóla.

Vannærð vegna fátæktar

Í Nam Dinh-héraðinu, þar sem ríkir gríðarleg fátækt, er fjórðungur allra barna undir fimm ára vannærður samkvæmt Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Samtökin áætla að um 2 milljónir víetnamskra barna undir 17 ára séu munaðarlausar, að því er danska blaðið Kristeligt Dagblad greinir frá. Þar segir jafnframt að ekki sé hefð fyrir því að víetnamskar fjölskyldur ættleiði óskyld börn og þess vegna bíði margra dvöl á munaðarleysingjahæli séu þau ekki ættleidd til útlanda.

Rúmlega 16 þúsund víetnömsk börn hafa verið ættleidd af erlendum foreldrum frá því að yfirvöld settu reglur um ættleiðingar árið 1994.

Undirriti yfirvöld í Víetnam alþjóðlegan sáttmála um ættleiðingar mun opinber stofnun bera ábyrgð á afgreiðslu ættleiðingarumsókna.

Núna hafa 85 miðstöðvar, sem 378 stofnanir fyrir börn heyra undir, leyfi til að samþykkja ættleiðingar til útlanda og til þess að ákveða upphæð greiðslna.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga ríki að tryggja að ekki séu stunduð viðskipti með börn.

Í hnotskurn
Sala á börnum til ættleiðinga fer víða fram í Asíu og einnig í Suður-Ameríku. Umræða er um hvort hætta eigi að ættleiða börn frá löndum þar sem vitað er um spillingu.