Á flugi Fjallvákurinn flaug vængjum þöndum og gladdi fuglaáhugamenn á Siglufirði með nærveru sinni.
Á flugi Fjallvákurinn flaug vængjum þöndum og gladdi fuglaáhugamenn á Siglufirði með nærveru sinni. — Ljósmynd/Sigurður Ægisson
FJALLVÁKUR sást í Siglufirði í gær. Þetta var í 19. sinn sem vitað er til að fugl af þessari tegund hafi sést hér á landi. Fjallvákurinn hélt sig við Selgil og þar í kring.

FJALLVÁKUR sást í Siglufirði í gær. Þetta var í 19. sinn sem vitað er til að fugl af þessari tegund hafi sést hér á landi.

Fjallvákurinn hélt sig við Selgil og þar í kring. Hann andæfði í loftinu og gaumgæfði umhverfið, eflaust á höttunum eftir mús eða annarri bráð, að mati séra Sigurðar Ægissonar fuglaáhugamanns.

Yann Kolbeinsson líffræðingur telur að um ungan fugl sé að ræða. Hann segir að norður-ameríska undirtegund fjallváka sýni tvö litaafbrigði, ljóst og dökkt, og hafa tvisvar sést hér dökkir fuglar. Þeir evrópsku eru af ljósa litaafbrigðinu líkt og fuglinn sem sást í Siglufirði. Hann getur því hvort sem er verið amerískur eða evrópskur og ekki hægt að segja um hvort á við um þennan fugl.

Fjallvákur er stór ránfugl, brúnleitur. Hann er líkur fálka að stærð, en vængirnir eru breiðari og lítið eitt lengri. Fjallvákurinn á varpheimkynni sín í Norður-Evrópu og er þar farfugl og hrekst hingað stöku sinnum á farflugi sínu á haustin. Það eru aðallega ungfuglar, sem lenda á flækingi, eins og umræddur fugl.

Fjallvákar lifa aðallega á nagdýrum. Þeir andæfa allhátt í lofti og steypa sér svo niður þegar þeir sjá bráð á jörðinni. Þessi sýndi einmitt þannig hegðun, á útkíkki sínu í Siglufirði í fyrradag. gudni@mbl.is

Í hnotskurn
» Tvær tegundir váka lifa í Norður-Evrópu, fjallvákur og músvákur. Báðar tegundir hafa flækst hingað, en þó mun færri músvákar en fjallvákar í áranna rás.
» Heimkynni fjallváka eru í Norður-Ameríku og í norðanverðri Evrópu og Asíu. Norðu-Ameríska undirtegundin skiptist í dökka og ljósa fugla. Evrópskir fjallvákar eru allir af ljósa litaafbrigðinu.