Birkiland Kjartan Sturluson og Ingvi Þór Guðmundsson ætla að lífga upp á Laugaveginn með hönnunarverslun.
Birkiland Kjartan Sturluson og Ingvi Þór Guðmundsson ætla að lífga upp á Laugaveginn með hönnunarverslun. — Morgunblaðið/G. Rúnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þuríði Magnúsínu Björnsdóttur thuridur@mbl.is Íslensk hönnun, fótbolti og viðskipti... hvernig fer þetta þrennt saman?

Eftir Þuríði Magnúsínu Björnsdóttur

thuridur@mbl.is

Íslensk hönnun, fótbolti og viðskipti... hvernig fer þetta þrennt saman? Auðveldlega að sögn Kjartans Sturlusonar sem er á kafi í þessu öllu; hann ver markið hjá Íslandsmeisturum Vals og landsliðsins, er viðskiptafræðingur og stofnaði netverslunina Birkiland síðastliðið vor ásamt Ingva Þór Guðmundssyni til að koma íslenskri hönnun á framfæri.

Hjá Birkilandsmönnum stendur nú fyrir dyrum að opna verslun með allar vörurnar af vefnum á boðstólum en þó ekki nema í þrjár vikur. Hún verður opnuð laugardaginn 4. október og á að ná í skottið á gestum tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves. Búðin verður eins konar sambland af hönnunarverslun og hönnunarsýningu og verður til húsa á Laugavegi 51 á tveimur hæðum, í bókaversluninni Skuld og flæðir yfir á neðri hæðina í Galleríi Verðandi. Því skal þó haldið til haga að hönnunarbúðin gengur ekki undir nafninu Urður, nafni þriðju skapanornarinnar.

Gluggi til útlanda

„Það verður líf í kringum þetta á Laugaveginum og skemmtileg viðbót. Við bjóðum hönnuðum upp á að vera með einstök verk sem þeir hafa áhuga á að sýna sem eru bara „prótótýpur“. En þó að maður skelli verðmiða á hönnunargripinn munum við stilla þessu öllu upp sem sýningu,“ segir Kjartan. Vörurnar verða m.a. innan um viðskiptabækur sem áðurnefnd bókaverslun sérhæfir sig í og verður þar stillt upp á pappírsborð eftir Ísraelann Sruli Recht sem hefur sest að á Íslandi.

Kjartan býst við góðum viðbrögðum við versluninni og segir þá reyndar ekki þekkja neitt annað: „Við erum með marga af færustu og flottustu hönnuðum landsins og þetta hefur gengið mjög vel. Við höfum fengið gott umtal, bæði hér heima og erlendis. Hönnuðir hafa haft samband við okkur og margir hafa fengið umfjöllun um sig í gegnum Birkiland. Það er skemmtilegt að segja frá því að síðast í dag hringdi hönnuður sem býr úti á landi og hefur mikinn áhuga á að koma vörunum sínum að sem hann hefur ekki mikil tækifæri til en í gegnum okkur gæti hann fengið umfjöllun og skapað sér markað.“

Að sögn Kjartans eru vörur þeirra seldar til landa eins og Bandaríkjanna, Spánar og Rússlands og helmingur kaupanna er sendur út en vefsíðan er á ensku og verðið í dollurum. „Við horfum meira út fyrir landsteinana en hingað heim. Ætlunin er líka að gefa hönnuðum möguleika á glugga til útlanda án þess að hver og einn þurfi að leggja í mikinn markaðskostnað. Við erum svo lítil og fá hérna á Íslandi.“

Flytja út, ekki inn

Spurður hvernig hönnunarhugmyndin hafi kviknað hjá viðskiptafræðingi í markvarðarstöðu segir hann ræturnar liggja í meistaranámi sínu í Mílanó á Ítalíu, í hönnunarstjórnun. „Við Ingvi höfum báðir mikinn áhuga á hönnun og svo er líka skemmtilegt að sjá hönnuði skapa sína eigin vöru. Það er spennandi á Íslandi í dag að stefna að því að selja vörur úr landinu en ekki flytja þær inn.“ Hann segir aðkomu þeirra sjálfra þó eingöngu viðskiptafræðilega en bætir því við að Ingvi sé forritarinn á bak við síðuna sem þyki vel heppnuð.

Kjartan miklar ekki fyrir sér að standa á milli stanganna meðfram hinu starfinu. „Ekki meðan maður hefur gaman af því,“ upplýsir hann. „Þetta fer ágætlega saman því ég lít þannig á að allir þurfi að hafa áhugamál. Sumir spila golf í fjóra tíma á dag og ég fer á mína fótboltaæfingu í tvo tíma. Svo er fótboltinn árstíðabundinn og ég sé fyrir endann á ferlinum einhvern tímann. Reyndar mættu stundum vera fleiri klukkustundir í sólarhringnum.“

birkiland.com icelandairwaves.com