[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Trausta S. Kristjánsson traustis@24stundir.is Það fylgir því ákveðin tilhlökkun að fara á mynd eftir þá Coen-bræður, enda eru flestar þeirra snilldarverk.

Eftir Trausta S. Kristjánsson

traustis@24stundir.is

Það fylgir því ákveðin tilhlökkun að fara á mynd eftir þá Coen-bræður, enda eru flestar þeirra snilldarverk. En þrátt fyrir að Burn After Reading flokkist seint sem þeirra besta mynd, er þetta ekta Coen-farsi með fyrsta flokks persónusköpun og súrum húmor.

Sniðug mynd um hálfvita

Þegar tveir starfsmenn heilsuræktarstöðvarinnar Harðir kroppar finna diskling með því sem þeir telja vera viðkvæmt ríkisleyndarmál, ákveða þeir að kúga fé af eiganda disksins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og farsakenndum misskilningi.

Frábærlega súr húmor

Burn After Reading er einskonar blanda af Fargo og Breach, þar sem tónlistin leikur aðalhlutverkið, ólíkt síðustu mynd þeirra Coen-bræðra. Tryllt njósnatónlist gefur til kynna að meira sé um að vera en raun ber vitni, sem er hrikalega fyndið, sérstaklega þegar persónurnar eru eins skrautlegar og lög gera ráð fyrir í Coen-mynd.

Eins og áður er húmorinn frekar súr, sem ekki er öllum að skapi, en þó svo að myndin sé ekki uppfull af hláturskasts-bröndurum, heldur hún áhorfandanum í það minnsta brosandi allan tímann.

Stórleikararnir standa sig allir vel, sérstaklega Brad Pitt og Malkovitch, og hefðu þeir að ósekju mátt hafa sig meira í frammi. Annars er nauðsynlegt fyrir alla Coen-aðdáendur og fleiri til að sjá þessa mynd.