Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess hversu mikill dráttur varð á málinu,“ segir í frétt í Morgunblaðinu í gær um dóm Hæstaréttar í nauðgunarmáli.

Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess hversu mikill dráttur varð á málinu,“ segir í frétt í Morgunblaðinu í gær um dóm Hæstaréttar í nauðgunarmáli. Ákærði var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir nauðgun, sem hann framdi fyrir rúmum fimm árum.

Seinagangurinn í rannsókn þessa máls er ekki boðlegur. Í dóminum kemur fram að viðleitni lögreglu til að ná í manninn, sem fluttur var til útlanda, eftir að niðurstaða rannsóknarinnar á málinu lá fyrir hafi verið stopul og ómarkviss. Bent er á að lögreglan hafi ýmis úrræði tiltæk með alþjóðasamvinnu til að finna ákærða og handtaka. Niðurstaða lífsýnarannsóknar lá fyrir í apríl 2004, en ekki hafðist upp á manninum fyrr en í mars 2007. Hann var dæmdur í héraði í nóvember 2007 og nú er dómur Hæstaréttar fallinn.

Þessi vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur. Ýmislegt hefur breyst í meðferð nauðgunarmála á undanförnum árum. Dómar hafa þyngst og aðferð nauðgarans hefur ekki lengur úrslitaþýðingu. Enn má bæta úr í þessum efnum og stingur til dæmis í augu hvað kæruhlutfall er lágt, þótt það hafi farið hækkandi. Meðferð þessa máls er hins vegar skref aftur á bak og getur haft þau áhrif að fórnarlömb leggi ekki fram kæru vegna þess að þau treysti sér ekki til þess að ganga í gegnum þann hrylling að þurfa að upplifa martröð glæpsins ítrekað í gegnum upprifjun á honum meðan á málsmeðferð stendur, jafnvel í fimm ár.

Það væri rétt að lögreglan færi ofan í saumana á meðferð þessa máls, áttaði sig á því hvað fór úrskeiðis og fyndi leiðir til þess að bæta úr. Svona vinnubrögð mega ekki endurtaka sig.