Atli Gíslason
Atli Gíslason
Atli Gíslason skrifar um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og störf lögreglunnar: "Vel að merkja, ofbeldi gagnvart lögreglumönnum hefur aukist umtalsvert og það stafar ekki síst af því hversu fáliðaðir þeir eru við almenna löggæslu."

Á FUNDI alþingismanna, sveitarstjórnarmanna, fulltrúa dómsmálaráðuneytisins og fleiri með lögreglu- og tollgæslumönnum á Suðurnesjum í mars 2008 komu fram óvefengjanlegar upplýsingar um fjársvelti embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og allt að því ómannúðlegt vinnuálag. Fjárveitingar hafa staðið í stað en verkefni stóraukist. Nægir þar að nefna að íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað um meira en 20% á fáum árum. Sama gildir um fjölgun farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll, stóraukna vöruflutninga, tollafgreiðslu og þannig mætti áfram telja. Framsögumenn á fundinum gagnrýndu ástand mála faglega og með tölulegum staðreyndum. Ríkisendurskoðun hefur sagt að það beri að tryggja embættinu aukið fjármagn ef verkefni hafa aukist. Í ljósi alls þessa hafa Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri og næstráðendur hans barist fyrir auknum fjárveitingum til að reyna að tryggja viðunandi aðstæður og skilyrði fyrir áframhaldandi störfum. Þeir hafa fyrir vikið mætt fullkomnu skilningsleysi og óvild dómsmálaráðherra.

Ég fékk góðfúslegt leyfi til að sitja fund Jóhanns R. Benediktssonar og næstráðenda hans með starfsmönnum embættisins síðdegis 24. september sl. Þar komu fram upplýsingar um samskipti embættisins við dómsmálaráðuneytið og dómsmálaráðherra sem gerðu mig orðlausan yfir þeirri vanvirðingu sem embætti lögreglustjóra hefur verið sýnt. Það er til að mynda með ólíkindum að ráðuneytið hafi eingöngu lagt til 40 milljóna króna aukafjárveitingu vegna tapaðra tekna í kjölfar brottfars hersins af Miðnesheiði, en engar fjárveitingar til ráðninga 10 nýútskrifaðra lögreglumanna, þrátt fyrir að hafa veitt heimild til þeirra, og til annars uppsafnaðs fjárhagsvanda.

Öryggi borgara og löggæslumanna í húfi

Skilaboð ráðuneytisins eru skýr, embættið á að halda sig innan óviðunandi fjárlaga sem þýðir einfaldlega stórfelldan niðurskurð og enn frekari fækkun lög- og tollgæslumanna á Suðurnesjum. Þetta eru óneitanlega kaldar kveðjur, ekki síst í ljósi þess að starfsmenn embættisins hafa frá 1. janúar 2007 unnið faglega og skipulega að sameiningu löggæslu og tollgæslu á Suðurnesjum og náð mjög góðum árangri í starfi þótt þeim hafi verið sniðinn óbærilega þröngur stakkur fjárhagslega. Dómsmálaráðherra hunsar einnig ítrekaðar áskoranir sveitarfélaga á Suðurnesjum um tafarlausar úrbætur og hefur nú hrakið Jóhann R. Benediktsson og þrjá yfirmenn úr starfi. Það er óskapleg blóðtaka fyrir löggæslu á Suðurnesjum og hreint skemmdarverk.

Sömu sögu er að segja af löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og reyndar á allri landsbyggðinni. Almenn löggæsla er komin að fótum fram og við blasa uppsagnir lögreglumanna. Önnur sparnaðarúrræði hafa verið fullnýtt. Öryggi almennra borgara er í húfi og að sama skapi öryggi lögreglumanna. Vel að merkja, ofbeldi gagnvart lögreglumönnum hefur aukist umtalsvert og það stafar ekki síst af því hversu fáliðaðir þeir eru við almenna löggæslu. Það er mál að linni og þjóðinni fyrir bestu að dómsmálaráðherra taki pokann sinn en ekki hæfir og reyndir yfirmenn jafnt sem almennir lögreglumenn

Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi.