Níels Krüger fæddist á Skálum á Langanesi 26. júní 1926. Hann lést 10. september síðastliðinn og fór útför hans fram frá Akureyrarkirkju 22. september.

Fyrstu kynni okkar voru á Raufarhöfn. Hans fjölskylda, Haraldur Krüger og kona hans Kristjana Konkordia Jóhannesdóttir fluttu til Raufarhafnar frá Skálum á Langanesi vorið 1940.

Þá sá ég þennan fjöruga en fámála dreng fyrst í fótboltaleik okkar heimastráka. Hann var fylginn sér í leiknum en afar heiðarlegur. Þannig var hans framkoma öll þau ár er ég þekkti hann.

Ungir fórum við til mennta, hann í skipasmíði hjá Kristjáni Nóa Kristjánssyni, ég í Menntaskólann á Akureyri. Við sátum saman í „rútunni“ frá Raufarhöfn til Akureyrar. Fyrst afar fámæltir en lagaðist þó. Ungir drengir að hleypa heimadraganum. Dengsi fær samastað hjá móðurbróður sínum við Eiðsvallagötu, ég hjá frænda mínum rétt hjá, Norðurgötu. Strax frá fyrstu eyddum við öllum tómstundum, saman; áflog, spilamennska, matador og rommy, kappræður um landsmál, hann rauður, ég þá blár. Aldrei hrutu heiftaryrði né smánarorð þó hart væri tekist á. Öll aðfangadagskvöld, að loknum kvöldverði á okkar „heimilum“ á Akureyri, komum við saman í herbergi Dengsa. Þar fyrstu jól setið þegjandi en áttuðum okkur fljótt. Ekki lengur mömmudrengir, nú ungir menn að takast á við lífið. Þá hófum við léttara tal og tókum til fyrri iðju, spil, allskonar, ljóðalestur o.fl.

Seinna er ég fór frá Akureyri að loknu námi, fann ég alltaf betur hversu þessi vinur minn var vel gerður, hógvær, trúr, skoðanafastur og umfram allt heiðarlegur gagnvart öllu og öllum.

Ég gæti sagt frá mörgum glettum er við gerðum ásamt vini okkar Óskari Vatnsdal. En það meiddi engan og aðeins fyrir okkur.

Við Dengsi héldum nánu sambandi alla tíð. Naut ég oft gestrisni þeirra, Hólmfríðar og Dengsa. Síðast hafði ég samband við hann 7. sept. sl. Þá var hann kátur og gamansamur er ég sagði honum að við hjónin færum til Barcelona 10. sept. Er við komum heim var það fyrsta sem ég sá í Fréttablaðinu að Dengsi hafði látist 10. sept. Þetta var þungt áfall og óvænt. En þetta er víst leiðin okkar allra. Svo vissulega söknum við góðs drengs. Dengsi, hvíl þú í friði, kæri vinur. Við hjónin vottum stórfjölskyldu hans okkar dýpstu samúð og hluttekningu í þeirra harmi.

Árni Einarsson.