Mezzoforte Eru á leiðinni til Vestmannaeyja.
Mezzoforte Eru á leiðinni til Vestmannaeyja.
„ÞEGAR við erum í Reykjavík þurfum við alltaf að vera að gera allt annað.

„ÞEGAR við erum í Reykjavík þurfum við alltaf að vera að gera allt annað. Við ákváðum að fara út úr bænum og leist vel á þetta, að fara út í Eyjar þar sem við fáum vinnufrið og meira verður úr verki,“ segir Jóhann Ásmundsson, bassaleikari í Mezzoforte, en hljómsveitin er að fara í upptökur á nýrri plötu í glænýju stúdíói sem hefur verið komið upp í gömlu Betel-kirkjunni í Vestmannaeyjum.

Platan á að koma út í byrjun næsta árs, en þá verða fimm ár liðin frá því að sveitin sendi síðast frá sér efni. „Við erum nú ekki að breyta neitt um stefnu, en við erum komnir með nýja meðlimi,“ segir Jóhann og á þar við saxófónleikarann Óskar Guðjónsson, trompetleikarann Sebastian og Bruno Mueller á gítar sem gengið hafa til liðs við upprunalegu meðlimina Jóhann, Gunnlaug Briem og Eyþór Gunnarsson.

Mezzoforte-liðar hafa verið á tónleikaferðalagi um Rússland, Þýskaland og eru nú staddir í Noregi þar sem þeir hafa meðal annars verið að prufukeyra nýja efnið. „Við höfum verið að leyfa fólki að heyra og viðbrögðin hafa verið mjög fín. Við blöndum þessu svona við annað,“ segir Jóhann. Eyjamenn fá svo að heyra sýnishorn af því í bland við fornfræg lög sveitarinnar á tónleikum næsta fimmtudagskvöld.

gunnhildur@mbl.is