Dreymnir Meðlimir Mercury Rev breyttust úr tilraunarottum í fágaða fegurðarsmiði á einni nóttu.
Dreymnir Meðlimir Mercury Rev breyttust úr tilraunarottum í fágaða fegurðarsmiði á einni nóttu.
Hin mikilhæfa sveit Mercury Rev, sem „sló í gegn“ með plötu sinni Deserter's Songs fyrir réttum tíu árum, snýr aftur eftir helgi með heilar tvær plötur í farteskinu.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Saga Mercury Rev er nokkuð merkileg, en henni má skipta í tvo gjörólíka kafla. Tímabil nokkuð argrar tilraunastarfsemi og svo tímabil þar sem draumkenndar, strengjalegnar ballöður ráða ríkjum umfram annað. Organdi furðulegheitum var skipt úr fyrir ofurfallega lagstúfa eins og hendi væri veifað.

Á fyrstu árum sveitarinnar fór þar nokkurs konar samsöfnuður eða hirð frekar en fullskipuð hljómsveit. Andlit sveitarinnar út á við var hinn bústni og brjálæðislegi David Baker, Joe Cocker á (meiri) sýru, en innan raða sveitarinnar voru og þeir Dave Fridmann og Jonathan Donahue, menn sem gáfu henni eitthvað sem kalla mætti eðlilegheit. Á sama tíma og Mercury Rev fór að gægjast upp úr jörðinni hófu þeir félagar að starfa nokkuð náið með Flaming Lips, svo náið reyndar að Donahue gerðist þar gítarleikari um hríð.

Þegar áðurgreind útgáfa af Mercury Rev kom fram á sviði vissi enginn almennilega hvað var að gerast og þá síst hljómsveitarmeðlimir sjálfir. Þessi súrrealíski sirkus nærðist á innri átökum og almennri óreiðu, ástand sem þó gat af sér meistaraverk í formi fyrstu plötunnar, Yerself is Steam (1991). Þar togast glæsilega á gallsúr tilraunastarfsemi og melódískt næmi sem á sér engan sinn líka í gervallri poppsögunni. Næsta plata, Boces (1993), þótti alls ekki síðri og sumir sverja og sárt við leggja að hún taki frumburðinum fram. Eftir plötuna hætti Baker hins vegar og í kjölfarið rann öll þessi heilnæma djöflasýra hægt og bítandi frá sveitinni. Annað og öðruvísi líf beið...

Galdur

Árið 1995 kom See You on the Other Side út, hefðbundin umbrotaplata, verk sem brúar for- og framtíð og er af þeim sökum í nettu limbói. Þremur árum síðar gekk sveitin hins vegar í endurnýjun lífdaganna. Heldur betur. Á plötunni Deserter's Songs hafði sveitin sniðið í burtu allt sem kalla mætti skringilegt – og útkoman hreint út sagt mögnuð (platan verður tíu ára upp á dag nú á mánudaginn og er endurútgáfa fyrirhuguð). Í raun var eins og um aðra hljómsveit væri að ræða. Í stað utangarðsvapps voru komnar klassískar lagasmíðar sem svifu áfram líkt og í draumi. Það er einhver tímalaus reisn yfir plötunni þar sem hún rúllar áfram; stórbrotin og tignarleg en um leið eru lögin fínleg og hlý. Levon Helm og Garth Hudson, meðlimir hinnar fornfrægu The Band, aðstoða á plötunni og gefa henni ekta, alameríska áferð og ýta undir eyðimerkurminnið í titlinum. Platan er eiginlega hreinasti galdur og fullyrða má að popp- og rokksamfélagið hafi engan veginn verið búið undir þetta. Margir miðlar stukku til í geðshræringu og slengdu plötunni í fyrsta sætið í ársuppgjörum sínum.

Donahue hafði ákveðið að þetta yrði síðasta plata sveitarinnar. Hann var svekktur yfir viðtökunum á See You on the Other Side , sem hann taldi besta verk sveitarinnar, og því ákváðu hann og félagar hans að búa til eina lokaplötu, bara fyrir sjálfa sig og gefa skít í það sem markaðs- og söluöflin vildu fá fram. Skemmst frá að segja ollu þessi mjög svo jákvæðu viðbrögð því að óðar var fallið var frá því að leggja sveitina niður.

Stöðnun

Tónlist Mercury Rev hefur fylgt þessum þræði nokkurn veginn síðan. Næsta plata, All is Dream (2001), var samt eiginlega of mikil endurtekning. Hljóðmyndin er stærri og epískari, að hlusta er eiginlega eins og að fylgjast með dramatískri kvikmynd á breiðtjaldi; platan flæðir áfram dálítið dökk, bæði drauga- og draumkennd. Fjórum árum síðar kom The Secret Migration út og þar er allt við það sama. Mercury Rev var þegar þarna var komið sögu orðin æði stöðnuð. Hún reis þó upp við dogg ári síðar með ágætri kvikmyndatónlistarskífu, Hello Blackbird (tónlist við myndina Bye Bye Blackbird ).

Nýja platan kallast Snowflake Midnight . Lítið er vitað um tildrög hennar en á heimasíðu sveitarinnar er yfirlýsing sem er klárlega brandari, viljandi upphafið bull um að óreiða og samstæður togist á, að platan hverfist um sjálfa sig „í eitthvað nýtt, óvænt og sjálfsprottið en um leið, eins þversagnakennt og það hljómar, er platan meðvituð, og líkist sjálfri sér í heild...“

Hér er mjög svo greinilega verið að skjóta á tónlistarblaðamenn, þetta eru engir vitleysingar Donahue og co. Jeff Mercel, einn liðsmanna, náðist þó utan kaldhæðna gírsins og segir hann að sveitin hafi reynt að aflæra það sem hún kunni, reynt sig við ýmisleg ókunnug tæki og tól í stað hefðbundinna hljóðfæra. Menn lágu svo yfir plötunni og lög voru klippt saman úr ógrynni upptökustunda. Sköpunin var reyndar svo mikil og rík að önnur plata verður gefin út um leið og Snowflake Midnight . Kallast hún Strange Attractor og fæst gefins sem MP3-niðurhal í gegnum síðurnar mercuryrev.com og yeproc.com.