Bakgarðar Bak við virðulegar verslanir í miðborginni þróaðist flókin byggð bakhýsa, skúra og hvers konar kofa.
Bakgarðar Bak við virðulegar verslanir í miðborginni þróaðist flókin byggð bakhýsa, skúra og hvers konar kofa. — Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hver er ímynd Reykjavíkurborgar? Og hvernig á að sýna fólki þessa hálfsundurlausu borg? Bragi Þór Jósefsson ljósmyndari tekst það verk á hendur í nýrri og myndarlegri bók.

Hver er ímynd Reykjavíkurborgar? Og hvernig á að sýna fólki þessa hálfsundurlausu borg? Bragi Þór Jósefsson ljósmyndari tekst það verk á hendur í nýrri og myndarlegri bók. Titillinn gefur ætlunarverk hans til kynna: Reykjavík – og svo bætir hann við: út og inn.

Út og inn, og aðallega út. Það er málið.

Hver eru hin hefðbundnu sjónarhorn á borgina? Rammi af Þingholtunum, þar sem Hallgrímskirkja gnæfir yfir húsin. Önnur mynd er frá Austurvelli, af Dómkirkju og Alþingishúsi. Þriðja myndin er einnig tekin þar, af fólki á góðviðrisdegi. Fjórða myndin gæti verið af hvalbátum, sú fimmta af styttunni af Ingólfi Arnarsyni, og svo ein tekin úr Hallgrímskirkjuturni, yfir marglit þök miðborgarinnar.

Þannig sýna erlendir ljósmyndarar höfuðborgina, þegar þeir koma til landsins að myndskreyta tímaritsgrein sem gæti heitið 48 tímar í Reykjavík. Ég gleymdi reyndar að minnast á myndina frá einhverjum barnum sem þyrfti þá einnig að vera í greininni.

Bragi Þór sýnir í bókinni mikilvægi þess að skoða Reykjavík út og inn. Hann sýnir vitaskuld miðborgina og helgar annan kafla menningunni. En Bragi er slyngur tímaritaljósmyndari, og hefur meðal annars sérhæft sig í arkitektúrljósmyndun, og hann leyfir þeim þáttum virkilega að njóta sín. Einn kaflinn heitir því Ásýnd og arkitektúr, þar sem fjallað er um einkenni á borgarmyndinni, iðulega með stílhreinum nærmyndum þar sem vel er unnið úr ljósi og formum. Þegar miðbæjarkaflanum sleppir koma síðan hinir mikilvægu kaflar, sem svo oft eru vanræktir í umfjöllun um borgina. Það er farið í Vesturbæinn, Austurbæinn – og svo úthverfin. Þarna eru einkennandi ljósmyndir úr Árbæ og Breiðholti, Grafarvogi og Grafarholti. Jafnt nýjar raðhúsalengjur og gamli Árbærinn sem unglingar á róluvelli á laugardagsmorgni í Breiðholti. Þar birtist flott úthverfastemning; kerran úr Bónus mætt við sandkassann og blokkirnar rísa í bakgrunni.

Nágrannasveitarfélögin fá einnig kafla, blessunarlega, því þau fylla líka inn í heildarmyndina. Sportbíllinn við mannlausa götu á Arnarnesi og Hamraborgin í Kópavogi; allt er þetta hluti af heildarmyndinni.

Það sem gerir bók Braga Þórs svo vel lukkaða er ennfremur að hann er að mynda allt árið. Stundum lýsir sól upp fáklædda sólunnendur, en við erum líka á ferðinni með Braga Þór í kafaldsbyl og fjúki. Þannig tekst honum að skapa svo raunsanna mynd af þessum heimi sem við búum í. Af mannfárri en samt margbrotinni borg.

Ekki má gleyma þætti textasmiðsins, Illuga Jökulssonar, því hann er stór. Afslappaður texti hans flæðir um síðurnar, fræðandi og nægilega írónískur. Illugi rekur tilurð þessarar borgar, sem um aldir virtist ekki ætla neitt „annað en að verða ævinlega lítilsmegandi útnes á hinu stóra Íslandi: ágætt bæjarstæði en úr alfaraleið“.

Illugi fjallar jafnt um þjóðareinkenni sem meinta Íslandsvini, um eðli miðborgarinnar og um breytinguna sem varð þegar íbúar borgarinnar hættu að skammast sín fyrir hana og fóru að átta sig á því að „Esjan þeirra var engu ómerkilegra fjall en fjöllin sem umkringt höfðu gamla niðurnídda torfbæinn“ þar sem forfeðurnir höfðu hokrað.

Bragi Þór og Illugi sýna okkur borg sem þenst út, og á sér bæði gömul hverfi og ný. „Og þar sem vindurinn blés áður óhindrað og hristi til teikningar skipulagsfræðinganna og arkitektanna sem góndu í kringum sig í ósnortinni náttúrunni, þar eru húsin nú risin, komnar gardínur í alla glugga, reiðhjól liggja upp við húsin, leikvöllur hefur verið útbúinn þar sem börnin gátu mokað til og frá kolsvörtum, aðfluttum sandi, og það eru komnar verslanir og sjoppur og myndbandaleigur og líkamsræktarstöðvar... það er landslag nútímamannsins.“

Og Reykjavík okkar – út og inn. efi@mbl.is

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson