Sigurður Þorkelsson fæddist í Sandprýði á Stokkseyri 23. júní 1922. Hann lést á dvalarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík 25. ágúst síðastliðinn og fór útför hans fram frá Digraneskirkju 5. september.

Elsku afi, það er tvennt sem mér er sérlega kært í minningunni um þig.

Þegar við gengum út úr kirkjunni eftir útför Stellu komstu til mín, tókst um herðar mér og baðst mig að kalla þig afa.

Síðan þá hefur þú verið afi minn.

Þú tókst mér afar vel og mér fannst ég alltaf velkominn í Lyngbrekkuna þegar ég ólst upp og ég skynjaði snemma að þið lituð strax á okkur mömmu sem hluta af fjölskyldunni.

Það kemur því sennilega ekki á óvart hve hrifinn þú varst af dóttur minni, Örnu Söru, en hún átti vísan stað í glugganum hjá þér, sem og á náttborðinu við hlið Stellu.

Óteljandi eru þær minningar sem ég á um þig, þó ég hafi dregið þessar tvær fram, og eru bílferðir, skrifborðsskápur, jólahald og neftóbak meðal þeirra sem efst koma upp í hugann.

Hvíl í friði,

Guðmundur Örn.

Elsku afi.

Nú hnígur sól að sævarbarmi,

sígur húm á þreytta jörð.

Nú blikar dögg á blómahvarmi,

blundar þögul fuglahjörð.

Í hljóðrar nætur ástarörmum

allir fá hvíld frá dagsins hörmum.

(Axel Guðmundsson.)

Kristín.