— 24stundir/Árni Sæberg
Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir hóf nýlega störf sem upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Eins og sjá má á dagbókinni hennar í gær er starfið nokkuð viðburðaríkt.

06.00 Vaknaði og fór í líkamsrækt. Það er erfitt að vakna en ef ég fer ekki á þessum tíma fer ég ekki. Þessi stund er nauðsynleg fyrir líkama og sál.

08.00 Kom heim og hjálpaði til við að gera strákana mína klára fyrir skólann og leikskólann.

09.00 Stöðufundur hjá Vaktstöð Landhelgisgæslunnar (LHG). Þetta eru daglegir fundir, oftast stuttir og hnitmiðaðir. Á þeim er farið yfir atburði síðastliðins sólarhrings. Þeir veita yfirsýn og eru nauðsynlegir til að hafa yfirsýn yfir víðtæka starfsemi LHG.

12.00 Mætti í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli og var á leið í mitt fyrsta þyrluflug þar sem ég var látin síga niður í bát Slysavarnafélagsins Landsbjargar en félagið æfði, ásamt LHG,

í ytri höfninni í Reykjavík. Ég hóf störf fyrir þremur vikum og til að geta lýst aðstæðum og sett sig í spor starfsmanna er nauðsynlegt að upplifa og kynnast störfum þeirra. Ég viðurkenni að ég var með fiðring þegar ég var komin í flotgallann og með hjálminn á höfuðið.

13.15 Sat um borð í TF-Eir. Sveif yfir Reykjavíkurflugvöll og út á Sundin. Tíminn leið hratt og áður en ég vissi af var ég komin með björgunarlykkjuna um mig miðja og sveif – að mér fannst í lausu lofti. Merkilega róleg enda í öruggum höndum Gæslumanna. Ég lenti örugglega á þilfari björgunarskipsins Ásgríms S. Björnssonar. Fór síðan yfir í björgunarbát sem tók þátt í æfingunni. Sigldum út í Engey þar sem við sóttum björgunarfólk. Ég var með myndavélina á lofti og myndaði það sem fram fór í æfingunni. Skemmtileg tilviljun að danska varðskipið Knud Rasmussen kom inn höfnina þegar æfingunni var að ljúka og lagði að bryggju við Miðbakka.

15.00 Björgunarskipið Ásgrímur lagði að bryggju við Grandagarð og við brunuðum að Miðbakka til að heilsa upp á kollega okkar. Vorum með þeim á Grænlandi fyrir rúmri viku þar sem fór fram leitar- og björgunaræfing þar sem voru æfð viðbrögð við afleiðingum óveðurs. Varðskipið verður opið almenningi á morgun og þá ætla ég að kíkja þangað með fjölskylduna.

16.00 Fór til baka í flugskýli Gæslunnar – í sæluvímu eftir viðburðaríkan dag.

17.00 Kom við á skrifstofunni í Skógarhlíð. Svaraði tölvupóstum, kláraði og lauk starfsdeginum.

20.00 Slakaði á og hafði það notalegt með fjölskyldunni.

Í hnotskurn
Hrafnhildur Brynja hóf störf hjá Landhelgisgæslunni í byrjun september. Hún er með meistaragráður í blaða- og fréttamennsku. Hrafnhildur á, ásamt eiginmanni sínum, tvo syni. Annan 9 ára og hinn 4 ára.