ftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur sigrunerna@24stundir.is Rokkabillíföt, kvöldkjólar og hárskraut eru meðal þeirra hluta sem fást í versluninni Glamúr á Laugavegi 41 sem selur bæði notuð kvenföt og ný en öll í gömlum stíl.

ftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur

sigrunerna@24stundir.is

Rokkabillíföt, kvöldkjólar og hárskraut eru meðal þeirra hluta sem fást í versluninni Glamúr á Laugavegi 41 sem selur bæði notuð kvenföt og ný en öll í gömlum stíl. Það sem gerir verslunina einkar sérstæða er þó að verslunareigandinn er ekki nema átján ára.

Búðin afhent á afmælisdaginn

,,Ég fékk búðina afhenta á átján ára afmælisdaginn minn í fyrra, hinn 15. desember,“ sagði Ilmur Eir Sæmundsdóttir. Ekki hefði verið ráðgert að afhendingin færi fram þann dag, það hefði einfaldlega æxlast þannig. Óneitanlega hefði afmælisdagurinn orðið enn skemmtilegri fyrir vikið. Verslunin hefði verið starfandi í nokkur ár en einungis selt notaðan fatnað.

,,Mér og mömmu hafði lengi fundist vanta búð sem seldi föt í gamla stílnum og þá bæði í litlum og stórum númerum. Þetta byrjaði þess vegna allt saman bara sem spjall okkar í milli,“ segir Ilmur. Þegar þær rákust svo á auglýsingu um að þessi búð væri til sölu var ákveðið að slá til.

Ómetanleg aðstoð

,,Það hefur komið sér rosalega vel að mamma er viðskiptafræðingur og hún hefur hjálpað mér mjög mikið, sérstaklega í byrjun með bókhaldið.“ Ilmur sagði að útfylling hinna ýmsu skjala hefði líka reynst meiri en hún hefði gert sér í hugarlund en það hefði allt bjargast.

Eftir að Ilmur tók við rekstri verslunarinnar fór hún fljótlega að selja ný föt í gamla stílnum.

Núna væri annar helmingur búðarinnar helgaður notuðum fatnaði og hinn nýjum.

Menntun og reynsla í bland

Ilmur var í einkaflugmannsnámi þegar hún keypti búðina en hætti eftir að námskeiðið sem hún var þá í var búið. ,,Ásamt rekstrinum er ég að mennta mig líka, svona hægt og rólega. Ég tók námskeiðið Máttur kvenna við Háskólann á Bifröst í vor og er núna að taka Stjórnun og markaðsfræði.“

Veiking krónunnar erfið

,,Það er auðvitað erfitt að reka verslun en þetta er líka mjög gaman,“ sagði Ilmur. Hún sæi aldrei eftir því að hafa farið út í þetta. Það erfiðasta væri sennilega að sjá fyrir hvað yrði vinsælt. Það væri ekki nóg að velja bara það sem manni sjálfum fyndist flott.

Ilmur sagði verðfall krónunnar líka hafa valdið miklum erfiðleikum. Innkaupsverð hefði allt hækkað mikið. Hún reyndi þó að halda álagningu í lágmarki og því hefði verðlagið í búðinni ekki hækkað að ráði. ,,Það skemmtilegasta eru innkaupin, að fá að velja allt í búðina sjálfur. Svo er líka gaman að vera sinn eigin yfirmaður,“ segir hún.

Breiður hópur

Viðskiptavinahópur Glamúr er afar breiður, sagði Ilmur. Inn kæmu allt frá fimmtán ára stúlkum upp í eldri konur sem væru að leita sér að fínum kjólum og skarti. Erlendir ferðamenn hefðu líka verið áberandi í sumar og rækju enn inn nefið.

Alltaf væri gaman að sjá fólk úti á götu í fötum sem kæmu úr búðinni. ,,Fyrir skömmu var ég til dæmis á tónleikum og söngkonan í hljómsveitinni var í fötum frá mér, það fannst mér alveg frábært.“

Dáðst af framtakinu

Ilmur sagðist bara hafa fengið góð viðbrögð þegar fólk kæmist að því hve ung hún væri. Hún sagði að auðvitað væri hún mikið bundin vegna búðarinnar en hún fengi mikið út úr þessu. ,,Hvað framtíðina varðar veit maður auðvitað aldrei en ég er að minnsta kosti mjög sátt núna,“ segir Ilmur að lokum.
Í hnotskurn
Verslunin Glamúr selur notaðan og nýjan fatnað í gömlum stíl. Þar eru líka sokkar, töskur, skart og hárskraut í miklu úrvali. Glamúr er á Laugavegi 41. Viðskiptavinahópurinn er afar breiður.