Karri Mælst er til þess að veiðimenn veiði ekki meira en tíu fugla hver.
Karri Mælst er til þess að veiðimenn veiði ekki meira en tíu fugla hver.
RJÚPNAVEIÐAR verða með sama fyrirkomulagi í haust og í fyrrahaust, samkvæmt ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra. Veiðitímabilið verður frá 1. til 30. nóvember. Leyft verður að veiða á fimmtudögum, föstudögum, laugardögum og...

RJÚPNAVEIÐAR verða með sama fyrirkomulagi í haust og í fyrrahaust, samkvæmt ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra. Veiðitímabilið verður frá 1. til 30. nóvember. Leyft verður að veiða á fimmtudögum, föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Áfram verður sölubann á rjúpum og rjúpnaafurðum. Svæði á Suðvesturlandi verður áfram friðað fyrir veiði. Mælst er til þess að hver veiðimaður veiði ekki fleiri en tíu fugla. Eftirlit verður með veiðunum á landi og úr lofti eftir því sem kostur er.

„Þetta er það sem við lögðum til,“ sagði Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands. „Við teljum að takmarkanir sem verið hafa á rjúpnaveiðum séu loksins að skila sér.“ Skotveiðifélagið lagði til í fyrra að sami veiðitími yrði 2007, 2008 og 2009. Í byrjun desember ætlar félagið að halda ráðstefnu til að ræða hvað taka eigi við. Sigmar sagði að Skotveiðifélagið hefði viljað viðhalda rjúpnaveiðum en takmarka þær við þol stofnsins. Reynslan sýndi að skotveiðimenn væru löghlýðnir einstaklingar og virtu friðunardagana. Veiðin hefði verið mjög hófleg.

Í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu segir að ákvörðunin byggist á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og mati Umhverfisstofnunar á heildarveiði í fyrra.

„Óvænt þróun hefur orðið í rjúpnastofninum að mati Náttúrufræðistofnunar. Fækkunarskeið er afstaðið eftir aðeins tvö ár, kyrrstaða er um landið vestanvert en á austari hluta lands er fjölgun í stofninum. Að mati stofnunarinnar gætir hér hugsanlega áhrifa af þeirri miklu sóknarskerðingu sem ákveðin var síðastliðið haust en veiðidögum var þá fækkað í átján. Einnig er talið að veiðimenn hafi hlýtt hvatningu um að sýna hófsemi í veiðum,“ segir m.a. í tilkynningu ráðuneytisins.