Martin og Einar „Það var talið að ég myndi ekki spila aftur,“ segir Martin meðal annars.
Martin og Einar „Það var talið að ég myndi ekki spila aftur,“ segir Martin meðal annars. — Morgunblaðið/Valdís Thor
ÉG er svo hamingjusamur yfir því að vera hér, og í þessum nýja og fína sal,“ segir píanóleikarinn Martin Berkofsky. Þeir Einar Jóhannesson klarinettuleikari halda tónleika í Salnum í dag klukkan 17.

ÉG er svo hamingjusamur yfir því að vera hér, og í þessum nýja og fína sal,“ segir píanóleikarinn Martin Berkofsky. Þeir Einar Jóhannesson klarinettuleikari halda tónleika í Salnum í dag klukkan 17. Á efnisskránni eru meðal annars verk eftir Schumann, Þorkel Sigurbjörnsson og Brahms. Auk þess leika þeir sitt einleiksverkið hvor; Einar eftir armensk-bandaríska tónskáldið Hovhaness en Berkofsky leikur píanósónötu eftir Beethoven.

Margir Íslendingar muna eftir Berkofsky, sem bjó hér á landi um nokkurra ára skeið á níunda áratugnum og tók virkan þátt í tónlistarlífinu. Það var líka hér sem hann lenti í alvarlegu bílslysi árið 1982 og var í nokkurra mánaða endurhæfingu á Grensásdeildinni. Slysið breytti lífi hans. Eftir það hefur hann helgað líf sitt góðgerðarstarfsemi; leikur ekki lengur fyrir launum, heldur rennur ágóðinn til góðgerðarmála. Hann starfrækir eigin góðgerðarstofnun og hleypur einnig maraþon, sem hann notar til að safna áheitum.

„Hugmyndin fæddist á Grensásdeildinni,“ segir hann. „Það var talið að ég myndi ekki spila aftur, enda með handlegginn brotinn á átta stöðum og er ennþá með fullt af nöglum og skrúfum í líkamanum. En mér var gefið annað tækifæri og ég vil nota það eins vel og ég get.“

Berkofsky hefur ekki leikið hér á landi „í mörg, mörg ár“, eins og hann segir. Þeir Einar hafa þó leikið saman erlendis og hljóðrituðu disk í Moskvu með tónlist eftir Brahms og Schubert. „Það var til styrktar munaðarleysingjahæli. Við lékum einnig á styrktartónleikum í Washington. Þá bauð Einar mér að leika hér. Ég er mjög ánægður með að vera kominn.“ efi@mbl.is