Eiríkur Mælir með skáldsögu portúgalska höfundarins Antonio Lobo Antunes, sem nefnist í enskri þýðingu What to do when everything's on fire?
Eiríkur Mælir með skáldsögu portúgalska höfundarins Antonio Lobo Antunes, sem nefnist í enskri þýðingu What to do when everything's on fire? — Morgunblaðið/Eyþór
Lesarinn Ég hef verið að grauta í hinu og þessu, meðal annars verið að lesa skáldsögu portúgalska höfundarins Antonio Lobo Antunes, sem nefnist í glænýrri enskri þýðingu What to do when everything's on fire?

Lesarinn

Ég hef verið að grauta í hinu og þessu, meðal annars verið að lesa skáldsögu portúgalska höfundarins Antonio Lobo Antunes, sem nefnist í glænýrri enskri þýðingu What to do when everything's on fire? Titillinn kann að hljóma sjálfshjálparlega en þessi bók hjálpar þó sennilega engum, allra síst nú, þegar dollarinn er svona hár, ég pantaði bókina á amazon. Antunes er einn af síðustu móhíkönunum, hann skrifar í beinu framhaldi af Faulkner og Céline, magnaður höfundur sem fjallar ævinlega af sama offorsi um sömu örvæntinguna, sem gjarnan tengist viðskilnaði Portúgala við nýlendur sínar. Hér er hann reyndar á skuggalegum slóðum í höfuðborginni, og segir af Paolo, syni dragdrottningar í Lissabon, sem áttar sig á því að hann átti enga bernsku. Og allt skrifað í gömlum flæðistíl í anda Joyce sem virkar oft, en verður líka stundum yfirþyrmandi, því öllu virðist vera að ljúka á mjög afgerandi hátt. Svo hef ég líka verið að lesa Alejo Carpentier frá Kúbu ( Los pasos perdidos ), svona í beinu framhaldi af endurlestri á hinni mögnuðu sögu hans Ríki af þessum heimi , sem Guðbergur Bergsson þýddi fyrir löngu. Roberto Bolaño frá Chile, sem hinn enskumælandi heimur hefur verið að kynnast að undanförnu, hefur einnig verið að þvælast fyrir mér, bæði á náttborðinu og undir því. Og talandi um Guðberg, þá las ég á dögunum endurritun hans á skáldsögunni Önnu , og ég verð að segja að hin nýja Anna , bók draumsins og dauðans, hugnast mér ekki síður vel en sú gamla, og þá er nokkuð sagt.

Eiríkur Guðmundsson,

útvarpsmaður og rithöfundur.