[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Hallur Stefánsson hefur verið áberandi í íslensku leikhúslífi síðustu misseri en hann er einmitt annar leikstjóri og einn leikenda í Macbeth sem frumsýnt verður á Smíðaverkstæðinu um næstu helgi.

Stefán Hallur Stefánsson hefur verið áberandi í íslensku leikhúslífi síðustu misseri en hann er einmitt annar leikstjóri og einn leikenda í Macbeth sem frumsýnt verður á Smíðaverkstæðinu um næstu helgi. Hann segir okkur meðal annars frá því þegar hann komst í bobba fyrir að skjóta með hvellhettubyssu á skip sem Rússlandsforseti gisti í.

Eftir Hauk Johnson

haukurj@24stundir.is

Hvað er á döfinni hjá þér?

Það er frumsýningin á Macbeth í Þjóðleikhúsinu 5. október. Svo fer ég í leikferð með Þann ljóta um landið auk þess sem ég mun kenna í leiklistardeild Listaháskóla Íslands á næstunni.

Hvert fórstu í sumarfríinu?

Ég kannaði Vestfirðina með syni mínum, Ágústi Breka.

Hver er þín fyrsta minning?

Ætli það sé ekki bara þegar ég sá ljósið... held ég.

Hvað langaði þig til að verða þegar þú varst lítill?

Mig langaði að verða Indiana Jones, Luke Skywalker, lögga og Macbeth. Þetta klassíska.

Mesta skammarstrikið fyrr og síðar?

Það var þegar ég var tekinn af sérsveitinni á leiðtogafundinum 1986 fyrir að skjóta á skemmtiferðaskipið hans Gorbatsjovs með hvellhettubyssu úr gömlu Liverpool-dótabúðinni. Ég var tekinn inn í bíl, byssan tekin af mér og ég var skráður í litla svarta bók. Ég var 9 ára og hef aldrei verið jafn hræddur við neina bók á ævinni.

Hvaða lifandi manneskju líturðu upp til og hvers vegna?

Fjölskylda, vinir og samstarfsfólk gefa öll ríka ástæðu til auðmýktar og aðdáunar.

Stærsti sigurinn?

Það var þegar Breiðablik sigraði HK 13-0. Þetta svar er fyrir Vigni Rafn.

Mestu vonbrigðin?

Að geta ekki leikið Lafði Macbeth líka.

Hvernig tilfinning er ástin?

Hún er flókin.

Erfiðasta lífsreynslan hingað til?

Ástin.

Hefurðu einhvern tíma lent í lífshættu?

Ég hef sloppið vel fyrir horn hingað til.

Hvaða hluti í eigu þinni meturðu mest?

Ég met fólk meira en hluti.

Hverjir eru styrkleikar þínir?

Er dálítið duglegur.

Hvaða galla hefurðu?

Fljótfærni, meðal annarra.

Ef þú byggir yfir ofurmannlegum hæfileikum, hverjir væru þeir?

Að geta breytt gengi íslensku krónunnar.

Fallegasti staður á Íslandi?

Gjögur á Ströndum er ein af fjölmörgum perlum. Svo er Arnarstapinn ekkert slor.

Hvað gerirðu til að láta þér líða vel?

Ég set upp eina hressandi leiksýningu og skála fyrir því.

Hefurðu einhvern tíma bjargað lífi einhvers?

Örugglega.

Skrýtnasta starfið?

Þegar ég var „stuepige“ á ferjunni frá Köben til Malmö í den.

Hvað myndi ævisagan þín heita?

Brotin loforð.

Hver myndi leika þig í kvikmynd byggðri á ævi þinni?

Það yrði Kiefer Sutherland.