BANDARÍSK yfirvöld tóku yfir hinn gríðarstóra sparisjóð Washington Mutual og hefur bankastarfsemi sjóðsins verið seld JPMorgan Chase fyrir 1,9 milljarða dala, andvirði um 185 milljarða króna.

BANDARÍSK yfirvöld tóku yfir hinn gríðarstóra sparisjóð Washington Mutual og hefur bankastarfsemi sjóðsins verið seld JPMorgan Chase fyrir 1,9 milljarða dala, andvirði um 185 milljarða króna. JPMorgan seldi eigin hlutabréf að andvirði um 10 milljarða dala til að fjármagna kaupin.

Þrot WaMu eins og bankinn er oftast kallaður í Bandaríkjunum er hið stærsta í bandarískri bankasögu. Með alls um 307 milljarða dala eignastöðu yfirgnæfir hrun WaMu svo um munar þrot Continental Illinois National Bank með sína 40 milljarða dala árið 1984 og 32 milljarða dala þrot IndyMac sem ríkisstjórnin tók yfir í júlí sl.

Hrun WaMu má eins og í öðrum slíkum tilfellum undanfarið rekja til slæmra fasteignalána sem bankinn sat uppi með ógrynni af. Vegna þeirra og annarra áhættusamra skulda hyggst JPMorgan færa niður lánasafn MaWu um 31 milljarð dala – fjárhæð sem gæti breyst ef ríkisstjórnin nær björgunaraðgerðum sínum í gegn og JPMorgan ákveður að vera hluti af þeim.

Lokun WaMu var fyrirsjáanleg, eins og nefnt var. Matsfyrirtækið Standard & Poor lækkaði matið á bankanum sl. mánudag sem ekki jók á lífslíkur hans þar sem það bættist ofan á önnur vandræði svo sem þau að viðskiptavinir hans voru farnir að taka út sparifé sitt af miklum móð eftir að gjaldþrot Lehman Brothers lá fyrir. Bankinn var því að komast í fjárþröng.

Eftir yfirtökuna sitja hluthafar WaMu eftir með tómar hendur, en hlutafjáreign þeirra þurrkast út.

bvs@mbl.is