Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Seðlabanka Íslands við grein Jóns Steinssonar í Morgunblaðinu: „Í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 26. september segir Jón Steinsson lektor Seðlabankann sofa á verðinum.

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Seðlabanka Íslands við grein Jóns Steinssonar í Morgunblaðinu:

„Í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 26. september segir Jón Steinsson lektor Seðlabankann sofa á verðinum. Hann beinir því eindregið til bankans að sjá til þess að nægilegt magn ríkistryggðra skuldabréfa sé til á markaðnum til að anna eftirspurn erlendra aðila sem hafa áhuga á að taka stöðu með krónunni og að hann rýmki reglur um veðhæfar eignir í viðskiptum við bankann.

Að þessu tilefni er rétt að taka fram að útgáfa ríkisbréfa var aukin til muna í ár frá því sem áður var ráðgert. Þess utan bauð Seðlabankinn innstæðubréf til sölu fyrr á þessu ári. Á dögunum voru innstæðubréfin endurnýjuð – ný bréf voru í boði á móti þeim sem féllu í gjalddaga. Í vikunni fór einnig fram ríkisbréfaútboð á grundvelli breyttrar áætlunar ríkissjóðs um slíka útgáfu. Þessari viðbótarútgáfu var beinlínis ætlað að koma til móts við þarfir erlendra fjárfesta. Þeir hafa hins vegar ekki haft þann áhuga sem vænst var, innstæðubréfin voru að mestu endurnýjuð en ekki að fullu. Reglur Seðlabankans um veðlánaviðskipti fjármálafyrirtækja við bankann hafa verið rýmkaðar í áföngum í ár til þess að greiða fyrir aðgengi að lausafé og hefur veðlánafyrirgreiðsla bankans stóraukist. Hún er nú trúlega meiri en þekkist víðast annars staðar. Af framangreindu er ljóst að Seðlabankinn og ríkissjóður hafa þegar gert það sem Jón Steinsson leggur til. Það breytir þó ekki því að erfið skilyrði ríkja á gjaldeyrismarkaði. Vandinn sem við er að kljást á að drjúgum hluta rætur að rekja til aðstæðna í alþjóðlegu fjármálakerfi þessa dagana sem einkennast m.a. af áhættufælni og leit eftir öruggu skjóli.

Í stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabankans 11. september sl. sagði meðal annars: Undanfarin misseri hefur Seðlabankinn í samvinnu við ríkisstjórnina unnið að því að auka traust á fjármálakerfið og virkni markaða. Auk skiptasamninga við norræna seðlabanka, útgáfu innstæðubréfa og aukinnar útgáfu ríkissjóðs á ríkisbréfum hefur gjaldeyrisforðinn verið stækkaður umtalsvert. Þá hefur Seðlabankinn fært reglur sínar um veðlánaviðskipti við fjármálafyrirtæki nær því sem gildir í Seðlabanka Evrópu. Áfram verður unnið að því að treysta innviði fjármálakerfisins. “