Fjármálaráðuneytið hefur ákveðið að fá dómkvadda sérfræðinga til að meta tjón ríkisins af samráði olíufélaganna Skeljungs, Olís og forvera N1; Essó.

Fjármálaráðuneytið hefur ákveðið að fá dómkvadda sérfræðinga til að meta tjón ríkisins af samráði olíufélaganna Skeljungs, Olís og forvera N1; Essó.

Ráðuneytið fær sérfræðingana til að meta tjón vegna útboða á eldsneyti fyrir Landhelgisgæsluna, Vegagerðina og lögregluna árin 1995 og 1996. Greint er frá málinu á síðu tvö í 24 stundum í dag og þar kemur einnig fram að Landhelgisgæslan hafi verið stærsti einstaki viðskiptavinur olíufélaganna þriggja.

Það er gott til þess að vita að yfirvöld hafi dug til þess að fara í mál við olíufélögin. Það er nefnilega hlutverk ríkisvaldsins að gæta hagsmuna almennings. Olíufélögin eiga ekki að seilast í vasa almennings eftir fé. Stjórnvaldssektin, sem olíufélögin berjast nú við að fá niðurfellda í dómsölum, bætir ekki tjón þeirra sem greiddu of mikið fyrir eldsneytið vegna samráðsins. Hún er sektin sem þau greiða fyrir að skipta markaðnum upp á milli sín og láta þannig fólk og fyrirtæki greiða meira fyrir dropann. Hún á að hindra að forsvarsmenn fyrirtækja á fákeppnismarkaði láti sér detta í hug að leika sama leikinn.

Fjögur ár eru liðin frá því að félögin voru sektuð þar til matsmenn eru nú kallaðir til að meta tjónið. Vonandi hefur það ekki áhrif.

Fjögur ár eru langur tími til gagnasöfnunar og það lítur út fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki sett málið í forgang. Hins vegar er málið flókið, eins og kom fram á Alþingi í febrúar 2005. Þá gagnrýndu samfylkingarmenn ríkisstjórnina fyrir að bregðast ekki strax við þegar ljóst var að borgin fengi bætur vegna olíusamráðsins.

Geir H. Haarde sagði þá að málið væri svo margslungið fyrir ríkið og vakti í ræðustól athygli á kenningu Samfylkingarinnar, sem hann sagði að sett hefði verið fram í umræðum á Alþingi árinu á undan, um að ríkið hefði í raun grætt á samráði olíufélaganna. Það hefði grætt á hærra olíugjaldi en ella. Má því ekki ætla að áralöng skoðun fjármálaráðuneytisins slái þá kenningu út af borðinu?

Þó að því hafi verið haldið fram að olíuverð hækki verði félögin dæmd til að greiða fyrir gömlu syndirnar á það ekki að stöðva ríkið. Því verði verðið ekki samkeppnishæft er mjög líklegt að nýir keppinautar sjái tækifæri til að fóta sig hér á landi. Samkeppnin yrði þá á endanum um eldsneytið í stað sælgætis á bensínstöðvunum.