— 24stundir/Valdís Thor
Haustið leggst alltaf vel í mig vegna þess að ég er haustbarn. Ég á nefnilega afmæli í september og það hefur eflaust haft sín áhrif. Það er líka svo gott að anda að sér svona kaldara og tærara lofti.

Haustið leggst alltaf vel í mig vegna þess að ég er haustbarn. Ég á nefnilega afmæli í september og það hefur eflaust haft sín áhrif. Það er líka svo gott að anda að sér svona kaldara og tærara lofti. Maður gæti auðvitað alveg hugsað sér að vera í stuttbuxum og í góðæri en svona er þetta. En það sem ég geri fyrir mig er að reyna að einblína svolítið á það sem virkilega er gott. Og ég set fókusinn á það og stækka það. Ég reyni að gera það líka fyrir stelpurnar mínar því maður finnur það alveg að þetta tal smitast í börnin okkar. Um leið og maður er aðeins byrjaður að ræða við börnin um allt sem er jákvætt og gott þá birtir aðeins yfir kollinum á manni og manni líður miklu betur. Þetta getur því leitt til ýmiss góðs.

Ég er með eina átta ára, eina sem er unglingur, 14 ára, og svo eina sem er bara orðin kona, 28 ára. Við vorum að spjalla svolítið um þetta allt saman og töluðum meðal annars um að við ættum ekki alveg jafn mikinn pening til að kaupa föt og svona. Þá ákváðum við að hittast alltaf annan hvern sunnudag og taka með okkur gömul föt sem við saumum úr. Og við áttum alveg dásamlegt kvöld síðastliðinn sunnudag. Þá tókum við t.d. gamlar sokkabuxur og saumuðum sem ermar á gamlan bol og svo var teiknað og bróderað. Og okkur fannst við ofsalega klárar því við slógum nokkrar flugur í einu höggi. Það kom ný flík og við áttum óborganlega samverustund. Þetta var því eitt af því jákvæða sem kom út úr þessu öllu saman.