Sigurbjörn Einarsson fæddist á Efri-Steinsmýri í Meðallandi 30. júní 1911. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 28. ágúst síðastliðinn og var útför hans gerð frá Hallgrímskirkju 6. september.

Ég minnist Sigurbjörns Einarssonar með einstöku þakklæti. Fyrstu kynni mín af honum voru gegnum sálma hans, sem ég las og söng við guðþjónustur í kirkjum og í kapellu Háskólans, þegar ég stundaði nám við guðfræðideild 2001–2006. Sálmar hans hrifu hjarta mitt. Prédikanir og greinar eftir hann voru kynntar og alltaf var talað um hann af mikilli virðingu.

Eftir útskriftina tók við reynslutími, sem var oft mjög einmanalegur. Á námstímanum var ég umkringd skólafélögum og kennurum, sem alltaf var hægt að spjalla við, tala um guðfræði og fá stuðning. Nú átti ég að klára mig sjálf. Ég hélt áfram að læra og lesa, bók eftir bók, ásamt því að fá þjálfun í að vera spítalaprestur og að sinna sálgæslu. Ég lærði um fjölmenningu og mismunandi trúarbrögð. Mér fannst ég oft vera alein mitt í mikilli hringiðu skoðana og hugmynda. Það var þá, sem ég leitaði í bók Sigurbjörns „Meðan þín náð,“ og þar fékk ég svör, sem gáfu mér frið. Ég var þakklát fyrir að eiga þessa bók. Ég skrifaði Sigurbirni jólakort og þakkaði honum fyrir hjálpina. Hann sendi mér jólabréf til baka með mikilli blessun. Hvílíkur heiður að eiga bréf frá honum.

Svo lengi sem menn hafa lagt stund á guðfræði hafa raddir og hugmyndir verið mismunandi. Þar deila menn um hver sannleikurinn sé. Jesús minnti á og varaði við að margir falsspámenn yrðu á vegi okkar, sem myndu reyna að afvegaleiða okkur. Í hinu mikla hafi hugmynda og skoðana hef ég oft fundið fyrir þreytu og áhyggjum yfir að ég gæti aðhyllst skoðanir og hugmyndir falsspámanna.

Dag einn í vor var ég í þungum þönkum, alein og í hálfgerðu myrkri.

Allt í einu var eins og brosað væri til mín. Augu mín beindust að bók í bókahillunni: „Um landið hér“ eftir Sigurbjörn Einarsson, með mynd af honum utan á. Átti ég virkilega þessa bók líka? Ég greip hana með mikilli ákefð, settist niður og las þangað til tárin streymdu niður vanga mína. Þarna var allt, svo dásamlega úskýrt, sem ég ekki hafði skilið í Biblíunni. Orð hans töluðu inn í hjarta mitt, sefuðu mig og gáfu mér frið.

Ég vil gefa öllum það ráð að útvega sér bækur eftir Sigurbjörn Einarsson. Þeir sem þrá huggun og skilning á Biblíunni lesi prédikanir hans og orð.

Rit hans ættu að vera fast námsefni í guðfræðideild. Hvílíkur auður það er fyrir Íslendinga að eiga verk Sigurbjörns. Ég mun ekki hafa bækur hans faldar í hillum heldur handhægar á borði.

Ég sendi Sigurbirni afmæliskort og þakkaði honum fyrir stuðninginn. Fallegt bréf fékk ég til baka með dýrmætri blessun. Ég fann hversu mjög ég styrktist af blessun hans. Í Sigurbirni Einarssyni hafði ég fengið traustan og kærleiksríkan vin, í sálmum hans, prédikunum og blessun hans.

Þakkir séu Guði fyrir líf Sigurbjörns, rit og störf.

Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir.