Veiðitími Hreindýraveiðin hefur gengið vel í Djúpavogshreppi.
Veiðitími Hreindýraveiðin hefur gengið vel í Djúpavogshreppi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ferðaþjónusta í Djúpavogshreppi er í stöðugri sókn og er greinilegt að ferðamenn kjósa í auknum mæli að nýta þá vaxandi fjölbreytni í þjónustu sem byggð hefur verið upp í sveitarfélaginu á síðustu árum.

Ferðaþjónusta í Djúpavogshreppi er í stöðugri sókn og er greinilegt að ferðamenn kjósa í auknum mæli að nýta þá vaxandi fjölbreytni í þjónustu sem byggð hefur verið upp í sveitarfélaginu á síðustu árum.

Ferðaþjónustufólk á svæðinu ber sig líka vel og þykir sumarið hafa komið vel út í alla staði, jafnframt ber mönnum saman um að nú stoppi ferðamaðurinn lengur við á svæðinu og eru skýringar á því m.a. taldar aukið framboð á afþreyingu og fjölbreytni í gistingu í sveitarfélaginu.

Í sumar var áberandi meira af puttalingum á ferðinni en leiða má líkum að því að það stafi m.a. af háu eldsneytisverði.

Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á útgáfu gönguleiðakorts fyrir Djúpavogshrepp, en kortið er unnið í samstarfi við þá feðga Helga Arngrímsson og Hafþór Snjólf Helgason landfræðing frá Borgarfirði eystra. Stefnt er að útgáfu kortsins fyrir áramót og vænta menn að það muni verða mjög vinsælt, þar sem að mjög víða er að finna fallegar gönguleiðir í sveitarfélaginu. Segja má að sveitarfélagið allt sé í raun óplægður akur að þessu leyti og rennir því ferðaþjónustufólk á svæðinu hýru auga til gönguhópa fyrir næsta sumar.

Hreindýraveiðar gengu vel í ár í Djúpavogshreppi og náðust öll þau dýr sem voru til úthlutunar. Hreindýraveiðar eru orðin töluverð atvinnugrein en nokkrir leiðsögumenn með heimili í sveitarfélaginu hafa tímabundna atvinnu af því að vera leiðsögumenn fyrir veiðimenn um svæðið, sem þykir skemmtilegt yfirferðar og jafnframt krefjandi. Margir veiðimenn telja að stærstu og fallegustu dýrin sé einmitt að finna í Djúpavogshreppi.

Djúpavogshreppur hefur staðið í miklum framkvæmdum á undanförnum árum en á síðasta ári má segja að það hafi verið slakað verulega á í þeim efnum, þó stendur yfir átak í gatnagerð og verður svo áfram. Sveitarstjórn bindur vonir við að það verði búð að leggja að langmestu leyti bundið slitlag á götur í þéttbýlinu á næsta ári.

Heitavatnsleit stendur yfir í næsta nágrenni við Djúpavog og hafa verið boraðar nokkuð margar holur á undanförnum árum í tilraunaskyni. Mjög góðar vísbendingar fundust á síðasta ári þegar 43 gráða heitt vatn fannst á ríflega 200 m dýpi. Gert er ráð fyrir að framhald verkefnisins skýrist betur á næstu vikum.

Það er engin kreppa á Djúpavogi því atvinnuástand er með betra móti um þessar mundir og hefur verið auglýst töluvert af lausum störfum að undanförnu í bænum. Laust húsnæði er þó af skornum skammti í þéttbýlinu og má segja að það vanti bæði hús til sölu og leigu til að mæta aukinni eftirspurn.

Smalamennskur hafa staðið yfir í sveitum Djúpavogshrepps að undanförnu og hefur gengið vel að heimta fé af fjalli og hafa smalar í flestum tilvikum hreppt ágætis veður og ekki annað að heyra en féð komi úr bithögum í góðu meðallagi.

Fyrir skemmstu var haldin þorskeldisráðstefna á Hótel Framtíð á Djúpavogi, en þar voru komnir saman ýmsir aðilar í greininni til skrafs og ráðagerða. Miklar vonir eru einmitt bundnar við þorskeldi í Berufirði sem Grandi hf. er nú með í kvíum. Áætlað er að stórauka þorskeldi í Berufirði árið 2010 og eru uppi væntingar meðal heimamanna að þau áform gangi eftir.

Eftir Andrés Skúlason