[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Spennustigið er vissulega orðið dálítið hátt en það er miklu meiri tilhlökkun að taka þátt heldur en eitthvert neikvætt stress,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, yngsti leikmaðurinn í landsliðshópi Íslands í knattspyrnu, en Sara...
„Spennustigið er vissulega orðið dálítið hátt en það er miklu meiri tilhlökkun að taka þátt heldur en eitthvert neikvætt stress,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, yngsti leikmaðurinn í landsliðshópi Íslands í knattspyrnu, en Sara verður átján ára gömul á mánudaginn kemur.

Eftir Albert Örn Eyþórsson

albert@24stundir.is

Það verður þó ekki séð að hún eða Rakel Hönnudóttir, hitt „unglambið“ í hópnum, séu með minnstu vanmáttarkennd gagnvart leikmönnum franska landsliðsins sem íslenska liðið mætir á Henri Desgrange-leikvanginum í dag í hreinum úrslitaleik um hvor þjóðin fer beint á Evrópumótið í knattspyrnu í Finnlandi á næsta ári. Franska liðið er þó er verulega hærra skrifað í kvennaboltanum en hið íslenska en bæði Sara og Rakel blása á allt slíkt og viðurkenna mjög fúslega að það verði bullandi fýla ef þær fá ekki að spila.

Spennustigið aldrei hærra

Það er engum ofsögum sagt að allar átján stúlkurnar í landsliðinu vilja spila þennan leik svo mjög vilja þær sýna sig og sanna og það verður að segjast að sá snefill af ótta eða hræðslu sem væri afar eðlilegur fyrir þennan stærsta leik íslenskrar kvennaknattspyrnu nokkru sinni er alls ekki fyrir hendi. Allra síst hjá þeim ungu eins og Sara og Rakel eru sammála um. „Eini óttinn sem við höfum þessa stundina er að fá ekki að spila. Leikurinn er svo stór og við höfum allar meira eða minna beðið þessarar stundar í svo langan tíma núna að það verður ekki auðvelt að sitja á bekknum því engin okkar getur beðið eftir að sýna að við eigum heima í þessu landsliði og ekki síður að sýna að litla Ísland getur alveg staðið uppi í hárinu á Frakklandi því það er ekki spurning í okkar huga. Í raun þyrfti að vera átján manna byrjunarlið því allar viljum við spila.“

Löng leið

Leikurinn mikilvægi fer fram í litlum bæ sem kallast La Roche-sur-Yon en ferðalagið þangað frá París á miðvikudaginn var reyndist ævintýralegt í neikvæðri merkingu. Sara lýsir ferðalaginu sem arfaleiðinlegu. „Við vorum komnar á hótelið okkar klukkan ellefu um kvöldið eftir rútuferð frá París og þetta tók allt miklu lengri tíma en nokkur áttaði sig á. Meira að segja þurfti bílstjórinn okkar að taka sér hálftíma pásu á leiðinni því hann var kominn yfir þann tíma sem hann mátti aka og svo biðum við einhvers staðar á miðri leið eftir honum í pásunni. Það var dálítið sérstakt en við urðum hvíldinni fegnar um kvöldið og erum fyrst núna að jafna okkur á því öllu saman.“

Það var því lítil furða að þegar blaðamaður spjallaði við þær um hádegisbilið í gær voru þær báðar voru með stírur í augum. Sara skammaðist sín ekki mikið fyrir það. „Við þurfum okkar „bjútísvefn“ eins og aðrar.“

Íslenskur sigur

Enginn íþróttamaður fer til leiks með það að markmiði að tapa nema mögulega stöku ítölsk knattspyrnulið á köflum. Sama gildir eðlilega um íslenska liðið gegn Frökkum en aldrei þessu vant eru yfirlýsingarnar ekki innantómar með öllu þegar þær telja sig geta sigrað. Rakel er viss um sigur. „Það er einhver sterk tilfinning sem ég hef fyrir þessum leik en get svo sem ekkert útskýrt það sérstaklega. Ég veit bara að við vinnum hann en þar með er ég ekkert að segja að ég sé forspá heldur er þetta bara eitthvað sem ég finn.“ Undir þetta tekur Sara en hvorug þeirra var í íslenska liðinu sem vann fyrri leik liðanna á Laugardalsvellinum en sá sigur vakti mikla athygli enda franska liðið meðal tíu bestu kvennaliða heims og er sem stendur sjöunda besta liðið samkvæmt heimslista Alþjóðaknattspyrnusambandsins.
Í hnotskurn
Frakkland og Ísland eru jöfn að stigum fyrir úrslitaleikinn í dag. Ísland vann fyrri leikinn, 1:0, og það ræður úrslitum ef liðin gera jafntefli í dag. Þá vinnur Ísland riðilinn og fer beint á EM en þarf annars að fara í tvo umspilsleiki í lok október.