Enya
Enya
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Jólin eru eins og við öllum vitum ekki bara tími stillu og helgi heldur eitt besta tækifæri ársins til að raka inn fé. Að gefa út jólaplötu er t.a.m.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Jólin eru eins og við öllum vitum ekki bara tími stillu og helgi heldur eitt besta tækifæri ársins til að raka inn fé. Að gefa út jólaplötu er t.a.m. nokkuð traust leið til þess arna og nú hefur verið tilkynnt um tvær slíkar en þær eiga án nokkurs vafa eftir að seljast í nokkrum tugum skipsfarma. Sara Brightman, poppóperudrottningin, ætlar að snara út einni slíkri plötu og einnig nýaldarpoppsdrottningin Enya.

Plata Brightman mun bera einkar hæfandi nafn, A Winter Symphony en plata Enyu ber vitaskuld ögn dularfyllra og eilítið töfrum slegnara nafn, And Winter Came... Á plötu Brightman verður að finna útgáfu af lagi John Lennon og Yoko Ono, „Happy Christmas (War is Over)“ og þá verður hið ósungna lag ABBA, „Arrival“, „jólað“ upp. Athyglisvert. Enya, sem er sögð hafa selt yfir 70 milljón plötur á ferlinum, slengir hins vegar jólasokknum lengra út en plata hennar á víst að vera „hálfgildings“ Enyu-plata líka, byggð á vetrarlegum minnum þar sem jólin flæða inn og út. Hmm...merkilegt. Þetta er haft eftir Nicky Ryan, samstarfsmanni Enyu.

Jólaplata Josh „Íslandsvinar“ Groban frá því í fyrra, Noël , er mest selda plata síðasta árs, en hún hefur nú selst í yfir fjórum milljónum eintaka. Það er því eftir miklu að slægjast.

Motörhead ER rokk og leiðtogi hennar, bassafanturinn ósnertanlegi Lemmy Kilmister ER rokkið holdi klætt. Orðinn sextíu og þriggja ára rokkar hann enn eins og óður og skilur sér yngri menn, sem gætu hæglega verið barnabörnin hans, eftir í reyknum. Lemmy er staðráðinn í að halda sveit sinni frá því að verða glymskratti á hjólum og nýjar hljóðversplötur koma því út reglulega. Sú tuttugasta leit dagsins ljóst á dögunum og kallast hinu einfalda en kröftuga nafni Motörizer (hei!, þetta er nú einu sinni hljómsveitin sem samdi lagið „Killed by Death“. Talandi um að komast að kjarna málsins...).

Meira er svosem ekki að segja um þessa blessuðu plötu, utan að hún rokkar víst bólufeitt – nákvæmlega eins og síðustu nítján stykki

Gæðasveitin Calexico gaf fyrir stuttu út nýja plötu. Kallast hún Carried to Dust og kemur í kjölfar Garden Ruin (2006). Fáar sveitir hafa jafn marga stíla undir sínum hatti, en í tónlist Calexico má heyra nýbylgjurokk, mexíkóska tónlist, kántrí, Morríkónska kvikmyndatónlist, portúgalskt fadó, djass, brimbrettarokk og tex mex m.a. Stundum í einu og sama laginu eða þvísem næst. Plötunni nýju var upptökustýrt af leiðtogunum Joey Burns og John Convertino en gestir eru m.a. Iron & Wine og Doug McCombs úr Tortoise. Fleira var ekki í fréttum. Góðar stundir.