[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stöð 2 hefur þann ágæta sið að sýna Simpsons-þætti beint á eftir fréttum nær alla daga vikunnar. Á mínu heimili hefur skapast hefð fyrir því að ég og fjögurra ára gamall sonur minn horfum saman á þættina áður en sá litli fer í háttinn.

Stöð 2 hefur þann ágæta sið að sýna Simpsons-þætti beint á eftir fréttum nær alla daga vikunnar. Á mínu heimili hefur skapast hefð fyrir því að ég og fjögurra ára gamall sonur minn horfum saman á þættina áður en sá litli fer í háttinn.

Eitt pirrar mig þó afskaplega mikið varðandi Simpsons-sýningar Stöðvar 2 og það er sú staðreynd að hrekkjavökuþættir Simpsons-fjölskyldunnar rata óeðlilega oft í sýningu. Þá horfir barnið mitt á þætti sem eru ekki við hæfi barna og ég þarf að svara býsna óþægilegum spurningum. „Pabbi, af hverju var Hómer sagaður í tvennt?“

Hrekkjavökuþættir Simpsons eru, undir öllum venjulegum kringumstæðum, sýndir einu sinni á ári, á hrekkjavöku. Á Stöð 2 virðist hins vegar vera hrekkjavaka allt árið því ég hef séð að minnsta kosti fimm Simpsons-hrekkjavökuþætti það sem af er árinu.

Eins og mér finnst gaman að sjá uppáhaldsteiknimyndapersónur mínar afhöfðaðar þá er ég ekki viss um að sonur minn og börn á hans reki hafi gott af því. Því held ég að Stöð 2 ætti aðeins að hugsa sinn gang. Hrekkjavakan er, eins og jólin, bara einu sinni á ári. Eigum við ekki bara að halda því þannig?