Eftir Eystein Björnsson eystb@ismennt.is ! Í mínum huga er Ríkisútvarpið langmikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Í fyrsta lagi vegna þess að það nær eyrum allra landsmanna.

Eftir Eystein Björnsson

eystb@ismennt.is

! Í mínum huga er Ríkisútvarpið langmikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Í fyrsta lagi vegna þess að það nær eyrum allra landsmanna. Ég segi eyrum því ég ætla ekki að fjalla um sjónvarpið hér, þótt það sé góðra gjalda vert. Til að forðast misskilning vil ég taka fram að hinar fjölmörgu útvarpsstöðvar sem sprottið hafa upp á síðustu árum eru mikið fagnaðarefni. Fjölbreytnin skapar frjóan jarðveg þar sem margt blómið nær að vaxa og dafna. Gallinn er þó sá að margar þessara stöðva nást einungis á afmörkuðum svæðum. Ríkisútvarpið stendur hins vegar öllum Íslendingum til boða hvar sem þeir kunna að vera staddir á ísa köldu landi. Ég kallaði það menningarstofnun þótt ég kunni ekki vel við orðið stofnun. Kannski væri nær að kalla Útvarpið kæran fjölskylduvin. Aufúsugestur, enda svo hæverskur að hann dregur sig einatt í hlé ef heimilisfólkið þarf að sinna öðrum gestum eða brýnum erindum. Þess utan er hann ætíð til staðar ef á þarf að halda. Ekki þarf annað en ýta á takka þá er heimilisvinurinn kominn með glóðvolgar fréttir, sögur sínar og tónlist.

Nú er það svo að allir vinnustaðir, hvort sem um er að ræða skóla, sjúkrahús eða önnur fyrirtæki, standa og falla með fólkinu sem þar starfar. Oft hef ég undrast hve miklu úrvals starfsfólki RÚV hefur á að skipa. Það er unun að hlusta á þuli Ríkisútvarpsins flytja okkur fréttir, tilkynningar og annað góðgæti. Raddirnar, hljómþýðar og blæbrigðaríkar, verða förunautar okkar í önn dagsins. Á því heimili er margur ljúffengur rétturinn tilreiddur og fram borinn af snillingum í hljómgerðarlist. Starfsfólkið, sem sér um dagskrárgerð og er með fasta þætti af margvíslegum toga á Rás I, er upp til hópa snillingar. Samfélagið í nærmynd er eitt dæmi af mörgum um góða dagskrárgerð (um langa hríð hefur mér fundist við Leifur Hauksson vera perluvinir þótt við höfum aldrei hist augliti til auglitis). Þar er kynning á fjölmörgum þáttum samfélagsins ásamt viðtölum við fróða og skemmtilega viðmælendur sem maður hefur aldrei heyrt í áður. Mér finnst eftirtektarvert hve umsjónarmenn eru fundvísir á umfjöllunarefni sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi í öðrum fjölmiðlum en brenna á þjóðinni. Vítt og breitt er annar fastur þáttur eftir hádegið sem Hanna G. Sigurðardóttir og hennar fólk stýrir af einstakri smekkvísi og alúð. Enn fremur má nefna Víðsjá , Spegilinn og aðra skylda þætti sem flytja okkur nýjustu fréttir af því sem er að gerast í listum, vísindum og samfélagsmálum innanlands og utan. Ekki má gleyma blessaðri tónlistinni sem sinnt er af miklum metnaði. Klassík, djass (I love you Lana) og alls kyns önnur alþýðutónlist. Kvöldgestir Jónasar, Útvarpsleikhúsið, framhaldssögur, þættir af skringilegu fólki og örlögum þess. Allt hressir þetta heilmikið upp á sálartetrið. Að lokum er vert að minnast á nýmælið, Á sum arvegi , sem verið hefur á dagskrá í júlímánuði (einnig síðastliðinn ágústmánuð) eftir hádegi virka daga nokkur undanfarin ár. Mig langar að lýsa sérstakri ánægju með fyrirkomulagið sem þar er viðhaft. Fólki á öllum aldri, úr ólíkum starfsstéttum, eru gefnar frjálsar hendur í 45 mínútur til að lýsa áhrifavöldum í lífi sínu, draumum eða eftirminnilegu tímabili.

Kæra Rás I. Ég á vart nógu sterk orð til að lýsa þakklæti mínu fyrir allar þær ánægjustundir sem fólkið þitt hefur veitt mér í áratugi. Megir þú lengi lifa og dafna í faðmi fjölskyldu þinnar.